151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að segja að við erum stödd í þingsal Alþingis árið 2020. Þegar ég hlusta á þessa umræðu finnst mér ástæða til að minna á það. Við eigum þetta samtal núna um réttindi kvenna árið 2020. Við eigum þetta samtal um réttindi kvenna líka í þingsal Alþingis og í landi sem stærir sig af árangri í jafnréttismálum. Við erum heimsmeistarar í jafnrétti samkvæmt listum World Economic Forum og höfum verið í 11 ár. En kreppa er oft jarðvegur fyrir bakslag. Mig langar samt til að ramma inn hvaðan við komum. Við erum þjóð sem hefur sett framsækna löggjöf um fæðingarorlof. Við höfum sett okkur löggjöf til að taka á launamisrétti með jafnlaunavottun. Við höfum sett löggjöf um kynjakvóta í fyrirtækjum. Við höfum sett reglur um samþykki til að undirstrika og vernda enn frekar kynfrelsi kvenna. Allir stjórnmálaflokkar sem taka sig alvarlega gæta að kynjahlutföllum og þeir gæta að kvenréttindum.

Hér er til umræðu mál sem varðar alvarlegar árásir á grundvallarrétt kvenna og ömurlega stöðu kvenna í Póllandi. Þeim er ætlað að ljúka meðgöngu barns sem vitað er að muni ekki lifa eftir fæðingu. Sú er staðan í Póllandi. En ég verð að segja, eftir að hafa hlustað á samtalið hérna í dag, að ég hef áhyggjur af stöðu íslenskra kvenna þegar ég hlusta á hvaða rök er verið að tína til og tefla fram í umræðunni. Það er síðan náttúrlega ugglaust tilviljunin ein að það eru langsamlega flestir karlmenn sem tala með þessum hætti, þessu skeytingarleysi gagnvart virðingu og réttindum kvenna.

Ef við förum til baka og skoðum aftur þá löggjöf sem samþykkt var hérna áður en ég tók sæti á þingi, um tímamark varðandi þungunarrof á Íslandi, þá er það svo, nánast án undantekningar, held ég, að þar að baki eru þær aðstæður að meðganga fer öðruvísi en ætlað var. Þegar við erum komin inn á þetta tímamark, kona gengin 20 vikur, blasir við að hún gengur með barn sem hún vill eiga. Engin kona gengur með barn í fimm mánuði ef hugur hennar eða ætlun stendur ekki til þess. Það kemur síðan í ljós í sónarskoðun, sem er einmitt á þessu tímamarki, að það er eitthvað svo mikið að að staðan breytist. Þetta tímamark helst í hendur við sónarskoðun. Það kemur eitthvað í ljós sem er þess valdandi að það er líklegt til að kalla fram lífsins stærstu sorg hjá þeirri konu og hennar manni. Og það að þá eru menn hérna að tala um í því samhengi að konur eigi að vita hvernig börnin verða til, er svo veruleikafirrt og út úr öllu korti. Mér er svo misboðið að ég næ varla utan um það.

Hinn punkturinn finnst mér vera sjónarmið þeirra flokka sem telja sig oftast nær vera að tala fyrir einstaklingsfrelsi. En einstaklingsfrelsið nær líka til kvenna, ekki bara til miðaldra karlmanna. Ég verð að viðurkenna að ég hef skilning og samúð með þeim sjónarmiðum sem byggjast á trúnni. Ég ber meiri virðingu fyrir sjónarmiðum hv. þm. Birgis Þórarinssonar, sem er einfaldlega ósammála því að þetta megi gera. Það á við um íslenskar konur jafnt sem pólskar. Hann hefur sína sannfæringu fyrir því, sín rök fyrir því. Ég er þeim einlæglega ósammála en ég skil í hverju það liggur.

Svo er það röksemdafærslan um að nú sé ekki rétti tíminn til að ræða þetta, af því að auðvitað er það þannig með mannréttindi að þau geta stundum átt við en það má annars slá þau út af borðinu. Sjónarmiðin um kostnaðinn sem er, að mér finnst, hjá nánast öllum sem hér hafa talað, nánast, sett fram sem eitthvert skjól fyrir aðra skoðun, skjól fyrir það sem þeir eiga erfitt með að segja.

Mér finnst sérstakt hjá þingmönnum stjórnmálaflokka og þegar maður rýnir atkvæðagreiðslurnar um þetta mál hvað varðar íslensku löggjöfina sem hér var til meðferðar fyrir nokkru, að þar séu menn sem tala fyrir einstaklingsfrelsi tilbúnir að skerða það svona hressilega og grimmdarlega þegar kemur að konum.

Ég ætla að fá að ljúka á þeim orðum sem ég byrjaði á. Árið er 2020 þegar við eigum í þessu sorglega samtali, sem ég býst við að framhald verði á í andsvörum. Sé einhver í vafa um hvort þetta samtal, þessi umræða, endurspegli bakslag í jafnréttisbaráttunni á Íslandi — hún gerir það augljóslega í Póllandi, þar liggur niðurstaðan fyrir — en sé einhver vafi um það hvort hér séum við að horfa upp á bakslag í jafnréttisbaráttunni þegar þingmaður eftir þingmann kemur upp með þessar röksemdafærslur, sem ég heyri að við munum fá meira af hér á eftir, þá hefur þeirri óvissu verði eytt á Alþingi í dag.