Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

lyfjatengd andlát.

169. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt tölum frá landlækni hafa aldrei fleiri látist úr ofskammti lyfja en á síðasta ári. 46 einstaklingar létust þá úr lyfjaeitrun, þar af níu undir þrítugu. Enn eitt metið hefur verið slegið og óhætt er að tala um faraldur lyfjatengdra andláta. Flestir þeirra sem létust voru á aldrinum 30–44 ára. Algengustu lyfin sem valda þessum eitrunum eru ópíóíðar og önnur sterk verkjalyf. Af þeim sem létust var blessunarlega enginn undir 18 ára aldri. Það rímar við rannsóknir og upplýsingar frá meðferðaraðilum sem segja mikinn árangur hafa náðst varðandi minnkaða neyslu ungmenna. Hins vegar er óhætt að segja að ungt fólk með vímuefnavanda sé í sérstakri hættu þegar kemur að lyfjatengdum andlátum. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni grípa til aðgerða og þá til hvaða aðgerða vegna aukningar á lyfjatengdum andlátum hérlendis.