132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

200. mál
[18:12]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi Kolbrún Halldórsdóttir saknar þess að ekki sé meira rætt um hvernig við Íslendingar ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vil láta þess sérstaklega getið að við erum nú að skoða stefnuna Velferð til framtíðar sem er stefnumörkun um sjálfbæra þróun. Hún verður til umræðu á umhverfisþinginu síðar í þessum mánuði og í framhaldi af því mun ég leggja tillögu fyrir ríkisstjórnina þannig að ég vænti þess að þessi mál verði meira til umræðu í vetur en oft áður.

Ég vil líka láta þess getið að í fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sérstöku 15 millj. kr. framlagi til að vinna að ýmsum málum varðandi gildistöku Kyoto-bókunarinnar og stærsti hluti þess framlags rennur til uppsetningar skráningarkerfis fyrir útstreymisheimildir Íslands. En það gæti líka komið að gagni varðandi útstreymis- og bindingarbókhaldið og það er ljóst að bókhaldið mun áfram taka breytingum bæði hjá okkur og á alþjóðavettvangi vegna þess að það er stöðugt verið að vinna að því að bæta þá aðferðafræði sem liggur því til grundvallar. En í aðalatriðum er þetta bókhald á útstreymi gróðurhúsalofttegunda í góðu lagi eins og bent er á í skýrslu úttektarnefndarinnar en íslensk stjórnvöld vilja bæta það enn frekar. Í þeirri viðleitni koma ábendingar nefndarinnar að góðu gagni en það er líka alveg ljóst að það bendir allt til þess að við munum standa við okkar hlut á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar og það er meira en hægt er að segja um margar aðrar þjóðir sem verða í miklum vandræðum og þurfa að kaupa sér kvóta.