132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

152. mál
[19:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári, þ.e. 24. nóvember í fyrra, ræddi ég málefni þeirra sjúklinga sem ekki hafa tök á því að ná sér í afsláttarkort vegna lækniskostnaðar vegna þess hve þeim er erfitt að halda saman þeim gögnum sem þarf til. Þar nefndi ég sem dæmi þá sem eru heilabilaðir, aldraðir og fatlaðir á ýmsan annan hátt og eiga erfitt með að halda saman gögnum.

Ég ákvað að endurtaka fyrirspurn mína en samkvæmt svari hæstv. ráðherra frá því í fyrra taldi hann ólíklegt að hægt yrði að koma á því kerfi að sjúklingar fengju sjálfkrafa sent afsláttarkortið þegar þeir væru búnir að greiða hámarksupphæð fyrir læknisþjónustu. Hann taldi það erfitt vegna persónuverndar, samkeyrslu upplýsinga o.s.frv. Þess vegna lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

1. Hvaða aðgerða er þörf svo að afsláttarkort vegna lækniskostnaðar berist fólki sjálfkrafa þegar hámarksgreiðslum er náð?

2. Eru uppi áform um að Tryggingastofnun ríkisins taki upp slíkt kerfi?

3. Hvað mundi kosta að koma slíku kerfi á?

Eftir að þessi fyrirspurn kom fram var tekið viðtal við mig í útvarpi og málin rædd. Næsta dag kom frétt frá Tryggingastofnun ríkisins, sem ég fagna, þar sem upplýst var að komið yrði á svona sjálfkrafa kerfi eins og ég hef verið að kalla hér eftir.

Í frétt frá Tryggingastofnun ríkisins segir að 45 þús. manns hefðu fengið afsláttarkort í fyrra og að daglega hefðu komið 250–300 manns á þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar til að sækja þessi kort. En nú á að koma þessu sjálfkrafa kerfi á og segir í frétt á heimasíðu Tryggingastofnunar:

„Reiknað er með að útgáfa á heimsendum afsláttarkortum hefjist á næsta ári en þó er ekki nákvæmlega ljóst hvenær á árinu sjálfvirka kerfið kemst í gagnið.“

Þar sem þessi frétt frá Tryggingastofnun rikisins svarar að hluta til þeirri spurningu sem ég hef lagt hér fram ætlast ég ekki til að hæstv. ráðherra endurtaki það en ég vil gjarnan fá að vita hvenær þetta sjálfvirka kerfi muni komast í gagnið. Ég fagna því að mönnum hafi tekist að yfirstíga þær hindranir sem hæstv. ráðherra sá fyrir ári á því að koma þessu á en ég veit að þó nokkur fjöldi hefur ekki getað nýtt sér þetta kerfi og notið þess afsláttar sem hann átti rétt á vegna þessa eins og hefur komið fram í umræðunni áður um þessi mál. Engu að síður fagna ég því að þetta skuli vera orðin framtíðin.