132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Aðgengi að hollum matvælum.

233. mál
[20:05]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ef ég byrja þar sem hv. þingmaður endaði þá stendur að sjálfsögðu sú tilvitnun í ávarp mitt sem hv. þingmaður fór með. En af því að hv. fyrirspyrjandi sagði að hún hefði orðið fyrir vonbrigðum með svar mitt þá vil ég taka fram að mér finnst óeðlileg vinnubrögð að ég ræði ekki fyrst við ríkisstjórn mál sem heyra undir samráðherra mína og mun gera það þegar tillögur þessarar mikilvægu nefndar sem er að fara af stað núna liggja fyrir.

Skoðanir mínar hafa legið fyrir lengi á þessum málum. Ég er fylgjandi því að beina neyslunni með þeim meðulum sem hægt er, að hollum matvælum. Það hefur reyndar verið gert ekki alls fyrir löngu þegar tollar af grænmeti voru lækkaðir og grænmeti lækkaði verulega í verði. Það var aðgerð sem beindi neyslunni að hollum matvælum sem ég tel að grænmeti sé. Ég held að ekki sé deilt um það. Skoðanir mínar á þessu liggja því fyrir. En ég tel ekki tímabært að tjá mig nákvæmlega um hvað verður gert í framhaldi af störfum þessarar ágætu nefndar.