133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að búið sé að kaupa borgina út úr Landsvirkjun því það gat auðvitað ekki gengið í samkeppnisumhverfi að hún ætti bæði Orkuveituna og þennan stóra hlut í Landsvirkjun.

Ég fagna líka yfirlýsingu iðnaðarráðherra um að með þessu sé ábyrgðum vegna virkjanaframkvæmda Landsvirkjunar létt af Reykvíkingum. Þeir séu ekki í tvöfaldri ábyrgð. Ég treysti því að sú yfirlýsing standi. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig verði staðið að því að létta þeim ábyrgðum af Reykvíkingum því þeir eru augljóslega í ábyrgð núna, sérstaklega fyrir þeim skuldbindingum sem stofnað hefur verið til vegna Kárahnjúka.

Ég fagna því líka að iðnaðarráðherra lýsir því yfir að ekki standi til að selja Landsvirkjun á næstunni. Það virðist þó vera ágreiningur í ríkisstjórninni því forsætisráðherra, Geir Haarde, hefur lýst því yfir að það sé eitthvert stærsta pólitíska verkefnið á Íslandi í dag, að einkavæða Landsvirkjun.

Þegar Framsóknarflokkurinn svarar svona dræmt og segir: Á næstunni. Þá hljótum við að spyrja hvað „á næstunni“ þýðir. Kemur ekki til greina á næsta kjörtímabili að selja Landsvirkjun að áliti formanns Framsóknarflokksins? (Gripið fram í.) Eða er hann tilbúinn til að fara með formanni Sjálfstæðisflokksins í þann leiðangur að einkavæða orkuauðlindir landsins með sama hætti og þessir flokkar einkavæddu auðlindir okkar sameiginlega í hafinu?

Það er mikilvægt að formaður Framsóknarflokksins tali skýrt í þessu. Það er líka mikilvægt að hann tali skýrt um það hvort steypa eigi saman í eitt Rafmagnsveitum ríkisins, Orkubúi Vestfjarða og Landsvirkjun. Vegna þess að þó það sé sjálfsagt að reyna að greiða markaðsöflunum leið inn á framleiðslumarkaðinn í raforku þá er ekkert eins vont rekstrarform til í heiminum og einkavædd einokunarfyrirtæki. Ef það er ætlun ráðherrans að byggja upp slíkt fyrirtæki sem hér er lýst með því að steypa þessum þremur fyrirtækjum saman í eitt, þá er nauðsynlegt að (Forseti hringir.) þjóðin fái að vita það strax.