133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

204. mál
[14:11]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma með þessa fyrirspurn inn í þingsali og ráðherra fyrir þau svör sem hann veitti. Það er af ókunnugleika sem ég spyr, ég heyri að hæstv. ráðherra talar um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði, mér þætti vænt um að fá hvaða skilgreining liggur þar að baki. Hvað er miðaldra fólk á vinnumarkaði og hvað er eldra fólk á vinnumarkaði? Þetta er eingöngu fyrir ókunnugleika minn að ég veit ekki hver skilgreiningin er á þessu. Af hverju er verið að tala um tvö hugtök, annars vegar miðaldra og hins vegar eldra? Ég hélt að miðaldra fólk væri í kringum fimmtugt en ráðherra skýrir það kannski fyrir mér.

Svo þætti mér vænt um ef hæstv. ráðherra gæti upplýst varðandi verkefnið sem hann vakti athygli á á Suðurnesjum vegna starfsloka þeirra sem unnu hjá varnarliðinu, hvort ríkið ætli að koma inn í það og greiða að verulegu leyti þann kostnað sem varð vegna þess verkefnis.