133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

starfsmannaleigur.

142. mál
[14:20]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hver reynslan sé af lögum um starfsmannaleigur sem samþykkt voru á Alþingi í lok árs 2005, en með setningu þeirra laga var að mínu mati stigið mjög mikilvægt skref. Hins vegar er alltaf erfitt að svara á einfaldan hátt hvernig reynsla er af framkvæmd laga, enda er hægt að meta það út frá mörgum mismunandi forsendum. Ég tel að þegar á heildina er litið hafi lögin náð tilgangi sínum. Þó ber að hafa í huga að innan við ár er liðið frá því að lögin komu til framkvæmda.

Vinnumálastofnun hefur borið ábyrgð á skráningu þeirra starfsmannaleigna sem eru starfandi hér á landi. Hafi þær ekki verið skráðar hafa þær að frumkvæði stofnunarinnar verið leitaðar uppi. Ég tel því að Vinnumálastofnun hafi rækt með ágætum það hlutverk sem henni er falið samkvæmt þessum lögum.

Starf Vinnumálastofnunar er ekki hvað síst fólgið í því að leiðbeina forsvarsmönnum þeirra um að fara að settum leikreglum og að starfsemin hér á landi sé með löglegum hætti. Þetta á ekki síst við um það að launagreiðslur séu í samræmi við gildandi kjarasamninga. Flestir forsvarsmenn starfsmannaleigna hafa tekið vel leiðbeiningum starfsmanna Vinnumálastofnunar þótt á því séu nokkrar undantekningar. Ég er ekki í vafa um að framkvæmd Vinnumálastofnunar á ákvæðum laganna og eftirlit með störfum starfsmannaleigna hafi skilað sér í því að meiri regla er á þessari starfsemi en var fyrir gildistöku laganna. Ég er þeirrar skoðunar að gera megi betur og horfi einkum til nánara samstarfs Vinnumálastofnunar, verkalýðshreyfingarinnar og þeirra fyrirtækja sem njóta þjónustu starfsmannaleigna.

Þrátt fyrir jákvæða reynslu af lögum um starfsmannaleigur vil ég ítreka hér að það er stefna stjórnvalda að milliliðalaus ráðning starfsmanna til fyrirtækja sé áfram meginreglan á íslenskum vinnumarkaði. Það ráðningarform hefur reynst best. Við viljum varðveita sveigjanleika í ráðningum og lítum svo á að bein ráðning starfsmanna sé hluti af því fyrirkomulagi.

Hv. þingmaður spyr: „Hversu margar starfsmannaleigur starfa í tengslum við íslenskan vinnumarkað?“ Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar eru 30 starfsmannaleigur nú skráðar hjá stofnuninni. Þess ber að geta að öllum starfsmannaleigum er skylt að skrá starfsemi sína hjá Vinnumálastofnun hvort sem þær eru innlendar eða með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Af þessum 30 eru 23 sem við getum sagt að séu með virka starfsemi hér á landi en sjö þeirra hafa annaðhvort ekki hafið starfsemi eða eru ekki með starfsmenn á sínum vegum á Íslandi. Á síðustu vikum hafa samtals verið skráðir um 990 starfsmenn hér á landi sem starfa á vegum starfsmannaleigna en þar af eru rúmlega 900 erlendir ríkisborgarar. Það má gróflega áætla að þessi fjöldi starfsmanna nemi um 0,6% af áætluðu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði. Flestir þeirra komu frá Portúgal en Pólverjar eru næstfjölmennastir. Næst þar á eftir koma Eistlendingar og Litháar og Þjóðverjar reka lestina hvað varðar fjölda einstaklinga.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum starfa flestir þessara starfsmanna við virkjanaframkvæmdir hér á landi og er þriðjungur þeirra verkamenn þegar litið er til starfsgreina. Tæplega fjórðungur þeirra eru skráðir trésmiðir en einnig er um að ræða sérhæfða verkamenn, hjúkrunarfræðinga og iðnaðarmenn, svo sem málmiðnaðarmenn, pípulagningamenn, rafvirkja og rafsuðumenn.

Hv. fyrirspyrjandi spyr enn fremur hversu margir þessara einstaklinga séu með viðurkenningu á menntun sinni frá heimalandi sínu. Því er til að svara að Vinnumálastofnun hefur hingað til ekki gengið eftir því að fá prófskírteini þeirra einstaklinga sem starfsmannaleigur skrá hjá stofnuninni en einbeitt sér að því að leiðbeina starfsmannaleigum almennt um ráðningarkjör á íslenskum vinnumarkaði. Þannig hefur rík áhersla verið lögð á að þegar starfsmannaleiga skráir iðnaðarmenn á sínum vegum gilda um störf þeirra kjarasamningar iðnaðarmanna hér á landi, svo sem kjarasamningur Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins. Jafnframt liggur fyrir að hluti notendafyrirtækja hefur gengið úr skugga um að menntun þeirra starfsmanna sem starfa innan þeirra fyrir milligöngu starfsmannaleigna sé viðurkennd hér á landi. Mun ég leggja ríka áherslu á að þeim þætti verði fylgt betur eftir en gert hefur verið fram til þessa. Til þess verðum við að virkja allar leiðir, gildandi löggjöf, framkvæmd Vinnumálastofnunar, notendafyrirtækin og samtök aðila vinnumarkaðarins. Ég vil ítreka hér það sem ég hef áður sagt að ég tel mjög mikilvægt að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga á innlendum vinnumarkaði raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast hér í gegnum tíðina fyrir tilstuðlan aðila vinnumarkaðarins. Tryggja þarf að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda hér á landi sem og að stuðla að því að milliliðalaust ráðningarsamband milli vinnuveitenda og starfsmanna verði áfram meginreglan svo eitthvað sé nefnt. Í því efni þykir mér mikilvægt að kalla atvinnulífið til ábyrgðar ekki síður en stjórnvöld. Af heimild til að ráða erlendan starfsmann leiðir ábyrgð um að uppfræða hann um réttindi og skyldur.