133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

skipan áfrýjunarstigs dómsmála.

268. mál
[16:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Jónsson) (Sf):

Herra forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar er hin umtalsverða fjölgun áfrýjaðra mála hjá Hæstarétti Íslands. Árið 2001 var 461 máli áfrýjað til Hæstaréttar. Hins vegar, eins og fram kemur í síðustu tveimur ársskýrslum réttarins, hefur orðið talsverð fjölgun áfrýjaðra mála sem orðið hefur á síðustu árum og nú er svo komið að 564 málum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar það sem af er þessu ári. Ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að fjöldinn fari í um það bil 700 mál í ár, sem væri þá um það bil 50% aukning frá árinu 2001. Þess má geta til samanburðar við þessi 700 mál að Hæstiréttur Danmerkur virðist kveða upp um það bil 300 dóma á ári og Hæstiréttur Bandaríkjanna kveður upp um það bil 100 dóma á ári.

Vinnuálag réttarins við þessar aðstæður er gríðarlegt. Þessu aukna álagi hefur Hæstiréttur þurft að mæta með deildaskiptingu sinni og aukinni verkaskiptingu dómara. Af þessu hefur leitt að í dag er það í rauninni þannig að það eru ekki nema þrír dómarar Hæstaréttar sem dæma mál í flestum tilvikum. Dómar Hæstaréttar eru því í raun réttri ekki samdir nema af einum þriðja hluta réttarins í flestum tilvikum. Þetta er mjög frábrugðið stöðunni í ýmsum öðrum ríkjum þar sem áhersla er lögð á æðsta dómstigi á aðkomu allra dómaranna, meðal annars í því skyni að tryggja samræmi í dómaframkvæmd.

Ég tel í ljósi þessarar þróunar að efni séu til þess að huga að breytingum á áfrýjunarstigi dómsmála, að eftir atvikum verði rykið dustað af gömlum og góðum hugmyndum sem bornar voru hér fram um að koma á fót millidómstigi sem mundi tryggja sama góða aðgengið að dómstólunum en um leið tryggja að fullur og óskiptur Hæstiréttur dæmdi í sem flestum málum. Hæstiréttur mundi þá einbeita sér að því að dæma í stærstu og viðamestu málunum ólíkt því sem tíðkast núna þegar Hæstiréttur þarf í raun að sinna öllu milli himins og jarðar, allt frá grundvallarspurningum um stjórnskipun niður í einföldustu skuldamál.

Í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið rakin, sem sagt hins aukna málafjölda og hinnar auknu verkaskiptingar Hæstaréttar sem af honum hefur leitt beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra sem fram kemur á þingskjali 277, hvort ekki sé rétt að huga nú að breytingum á skipan áfrýjunarstigs dómsmála.