133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

skipan áfrýjunarstigs dómsmála.

268. mál
[16:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Jónsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og ég fagna því að hann ræði að minnsta kosti einhverjar hugmyndir um breytingar á skipan dómsmála af því að ég held að hér verði með einhverjum hætti að grípa inn í. Ég vil leggja áherslu á það að fjöldi málanna er ekki eina ástæðan. Ég skal alveg taka undir það að Hæstiréttur vinnur, tel ég, mjög gott starf við mjög erfiðar aðstæður.

Það verður hins vegar að líta til þess að ákveðnar ástæður eru fyrir því að æðstu dómstólar í mörgum ríkjum eru þannig að allir dómarar dæma í hverju einasta máli. Hér er það þannig að einn þriðji hluti réttarins tekur þátt í afgreiðslu flestra mála. En ástæða þess að önnur ríki leggja áherslu á að meiri hluti dómenda eða allir dómarar komi að málum er auðvitað sú að lögð er áhersla á að tryggja að allir dómendur komi að mótun fordæma og að fullt samræmi sé í dómaframkvæmd. Þótt núverandi Hæstiréttur standi sig mjög vel þá segir það sig sjálft að ákveðin hætta er fólgin í því að ef hinn níu manna Hæstiréttur er vinnandi í þriggja manna einingum þá viti hægri höndin hugsanlega ekki alltaf fyllilega hvað sú vinstri sé að gera. Ég er alls ekki að segja að það sé þannig núna. Þvert á móti, ég held að Hæstiréttur standi sig núna mjög vel. En þessi hætta er augljóslega fyrir hendi og ég held að það verði að huga að því að breyta þessu.

Ég legg líka áherslu á að þetta eru 700 mál á ári. Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmir 100 mál á ári. Þetta er ekkert smávegis vinnuálag. Þetta þýðir að þeir þurfa að hlýða á fjölda mála í hverri einustu viku. Álagið þarna er gríðarlegt. Álagið hér í þingsölum held ég að blikni hreinlega samanborið við það álag sem er á hæstaréttardómurum. (Gripið fram í.) Ég held að það verði að grípa hér inn í og ég tel að upptaka millidómstigs væri mjög góð leið í þessum efnum. Það mundi tryggja sama góða aðgengið en tryggja um leið fullan og óskiptan Hæstarétt í sem flestum málum.