135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

afkoma og fjárhagur sveitarfélaga.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Ólíkt hv. þingmanni þá hef ég ekki haft tíma til að kynna mér nákvæmlega ræðu fjármálaráðherra frá því í morgun. (Gripið fram í.) Það er gott að vita það en vandinn sem að er vikið er auðvitað ekki nýr. Hann hefur verið til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnar og í samtölum ríkis og sveitarfélaga afar lengi.

Í marsmánuði, minnir mig, á þessu ári var skrifað undir sérstaka yfirlýsingu af hálfu fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og sveitarfélaganna um það hvernig unnið skyldi að því að greiða úr fjárhagsvanda sveitarfélaganna og að því er unnið, á grundvelli þeirrar yfirlýsingar. Þar er talað um sérstakar fjármálareglur fyrir sveitarfélögin en jafnframt um einhvers konar atbeina ríkisvaldsins að því að grynnka á skuldum þeirra. Það má ekki gleyma því að á undanförnum árum hefur ríkisvaldið lagt miklar upphæðir inn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að styðja við bakið á þeim sveitarfélögum sem lakasta hafa útkomuna og það eru meira og minna fjárframlög umfram það sem lögin í landinu gera almennt ráð fyrir. Það er ekki þannig að ríkisstjórnin, hvorki þessi né hin fyrrverandi hafi sérstaklega haft það eins og eitthvet markmið að koma illa fram við sveitarfélögin, eins og glyttir í í málflutningi hv. þingmanns að væri hugmyndin.

Auðvitað er það rétt hjá þingmanninum að svona umræða verður ekki tæmd við þessar aðstæður í óundirbúnum fyrirspurnum og málið verður ekki leyst í ræðustól Alþingis. Málið verður leyst í samtölum milli ríkisins og sveitarfélaganna.