135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:34]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að koma upp og skýra mál sitt. Ég er þó litlu nær. Hv. þingmaður endaði ræðu sína með því að segja að það ætti að fara mjög varlega í að beita heimild 28. gr. Því er ég sammála en ég spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Hver á að njóta vafans í þessu máli? Ef vafi er uppi um heimildina á stjórnarskráin að njóta vafans eða framkvæmdarvaldið? Að því spyr ég mig, bæði sem þingmaður sem unnið hefur heit að stjórnarskránni og jafnframt sem lögfræðingur.

Ég get líka spurt hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Getur fjárskortur Þróunarfélagsins vikið löggjafarvaldinu til hliðar? Getur skortur á iðnaðarmönnum vikið stjórnarskránni til hliðar? Getur sleifarlag framkvæmdarvaldsins eða stofnana framkvæmdarvaldsins réttlætt að barið sé í brestina með bráðabirgðalögum? Það að ríkisstjórnarflokkarnir kjósa að nota meiri hluta sinn á þingi og fylkja sér bak við málið gerir það hvorki lögfræðilega réttara né rangara. Það sýnir bara fyrir mér að það er þokkalegur agi á stjórnarliðinu. Lögfræðilega er það mat mitt að því fari fjarri að heimild hafi verið fyrir hendi til að setja bráðabirgðalög í sumar.