137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:11]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka undir orð hv. þingmanns vegna þess að í andsvari mínu við formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, 1. flutningsmann að þessari tillögu, sagði ég að hér kæmi margt lofsvert fram og að margt væri athyglisvert og flest af því væru gamalkunnug ráð. Ég ætla að ræða um það á eftir í ræðu minni. En það er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að fara yfir þessa þætti og þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði áðan og mér finnst líka koma fram í máli hv. þm. Árna Johnsens, að fara aðeins í fortíðina til að gera hana upp. Það er sama hvort það er að brennt barn forðast eldinn eða hvað en við þurfum að hyggja að fortíðinni til að byggja framtíðina. Það er grundvallaratriði. Þess vegna hef ég sagt það hér og skal segja það einu sinni enn: Það er virðingarvert af sjálfstæðismönnum hvernig þeir setja ýmislegt fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu þar sem þeir gera upp við fortíðina. En það eru líka staðreyndir sem vert er að draga fram vegna þess að vítin eru til varnaðar, þetta getum við ekki gert áfram. Ég neita því að tala um að það sé eitthvert svartagallsraus eða eitthvað þess háttar og að of mikið sé litið til fortíðar þegar mann eru að gera þessa þætti upp. En mér finnst virðingarvert, virðulegi forseti, og ég ítreka það, að sjálfstæðismenn skuli vera að gera upp við fortíðina á þann hátt sem hér er gert vegna þess að í þessari greinargerð er mjög mikil ádeila á störf Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár, á þeim tíma sem hann hefur verið að hreykja sér af því að hafa verið í ríkisstjórn og leitt ríkisstjórn. Ég gerði þetta eingöngu að umtalsefni vegna þess að hv. þingmaður talaði um reynslu og verkvit og allt það en við skulum fara yfir þessa þætti betur á eftir.