137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:04]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það sem hv. þingmaður fjallaði um í lokin, þ.e. hvort ég væri með einhverja fyrirvara við þá hugmynd sem þarna er sett fram sem ég gerði að meginmáli í ræðu minni. Ég get ekki sagt að ég þurfi neitt meiri fyrirvara en þarna eru settir fram. Þarna er lagt til að skoðaðir verði kostir og gallar þessa og ég tek alveg heils hugar undir það, ég sé kostina. Ég ímynda mér að ýmsir muni sjá ókostina og það séu þá sjóðstjórnir í lífeyrissjóðunum og þeir sem stjórna þeim vegna þess að það rennur minna fé inn til þeirra í þau ár sem þetta varir. Við erum svo sem ekki óvön því að lífeyrissjóðirnir finni því ýmislegt til foráttu sem verið er að gera, ég minni t.d. á útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðarins. Lífeyrissjóðirnir tóku ekki neitt voðalega mikið undir það þegar það var sett fram.

En þarna eru nokkur atriði reifuð hvað þetta varðar eins og að augljós galli við kerfisbreytinguna er að þjóðhagslegur sparnaður mundi tímabundið ekki aukast jafnhratt. Þetta er alveg rétt og þess vegna segi ég, virðulegi forseti, og það er kannski innlegg mitt í þessa umræðu, að það sé vert að skoða þetta, þetta sé tímabundin ákvörðun, ekki til framtíðar og ekki búa til tvö kerfi eins og hér er sett fram. Það má kannski segja að það sé fyrirvari minn að ég sjái ókostinn við það að búa til tvö kerfi. En ef þetta er tímabundin sértæk aðgerð eins og svo margar aðgerðir sem við erum að gera, sama hvort það eru neyðarlög, mikill niðurskurður í ríkisfjármálum eða annað, þá er vert að skoða þessa leið líka. Það eru einu fyrirvararnir sem ég hef. En get tekið undir það sem þarna kemur fram, það á að skoða kosti og galla og því er ég alveg sammála.