137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er ástæða til að koma upp í þessa umræðu um þá tillögu sem hér er til umfjöllunar um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála en tillagan er flutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil byrja á því að hrósa þingflokki Sjálfstæðisflokksins fyrir þá vinnu sem liggur á bak við þær tillögur sem hér liggja frammi í þingsályktunartillöguformi, bæði tillögurnar sjálfar og eins ítarlega greinargerð sem þeim fylgir sem hefur að geyma margvíslegar upplýsingar og frekari rökstuðning fyrir þeim hugmyndum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja hér fram.

Það var sagt í umræðum fyrr dag að það væri einsdæmi og nýmæli að stjórnarandstöðuflokkur legði fram tillögur af þessari gerð. Ég sá ástæðu til að bregðast við því með andsvari við hv. þm. Árna Johnsen og minna á að svona í svipinn hefði ég munað eftir tveimur þingmálum frá undanförnum árum sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu. Á 133. löggjafarþingi 2006–2007 kom fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, flutt af öllum þáverandi þingmönnum flokksins, var þingmál númer 14 á því þingi. Það komst því miður aldrei til umræðu eða á dagskrá. Á 135. löggjafarþingi 2007–2008 var það frumvarp til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum. Það tókst að mæla fyrir því og það var sett í nefnd en komst ekki lengra.

Ég nefni þetta aðallega til þess að draga fram þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á störf Alþingis á undanförnum missirum, að minnsta kosti eftir að ég kom hingað og áreiðanlega áður líka, þ.e. að erfiðlega gangi að fá á dagskrá mál frá óbreyttum þingmönnum eða stjórnarandstöðu, að þingið þyrfti sérstaklega að taka á því. Ég tel að þau skjótu viðbrögð sem þessi tillaga þingmanna Sjálfstæðisflokksins fær — hún er tekin á dagskrá einum eða tveimur sólarhringum eftir að henni er útbýtt — séu til marks um að áhugi er á breyttum vinnubrögðum en hún er auðvitað líka til marks um alvarleika þess máls sem við fjöllum hér um.

Þegar þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram sín þingmál árin 2006–2007 og 2007–2008 var ástandið í efnahagsmálum ekki orðið eins og það er orðið nú. Engu að síður voru þá blikur á lofti um stöðu efnahagsmála og margt sem benti til þess að við værum að sigla inn í erfitt tímabil með miklum óstöðugleika. Stjórnvöld hefðu þurft að bregðast við því á sínum tíma en það var því miður ekki gert.

Ég er ekki viss um að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í dag, sem er afleiðing bankahrunsins og gjaldeyrishrunsins, væri jafngeigvænlegur ef menn hefðu gripið til ráðstafana á fyrri stigum, ef íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir hefðu verið betur á vaktinni gagnvart því sem þá var í pípunum. Í því efni er óhjákvæmilegt að nefna hina miklu söfnun fjár á innlánsreikninga íslenskra banka í útlöndum.

Mig langar örstutt að koma inn á nokkur atriði í þessari tillögu. Ég vil taka það skýrt fram í upphafi að ég er mjög ánægður með að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggja þessa vinnu hér á borðið, sínar hugmyndir. Það þýðir ekki að maður sé endilega sammála öllu því sem þar kemur fram en margt af því eru hlutir sem er að mínu viti mjög mikilvægt að skoða nánar. Sumt af því er reyndar og hefur verið á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar þannig að þar fellur það ágætlega vel saman.

Hvað varðar heimilin í landinu þá er hér talað um að rýmka verulega skilyrði þess að heimilin geti lækkað greiðslubyrði húsnæðislána og að stofna sérstakan hóp til þess að fjalla um leiðir til þess að lækka höfuðstól fasteignaveðlána. Það er rétt sem fram hefur komið að margar af þeim aðgerðum sem bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn undirbjuggu strax í lok síðasta árs, aðgerðir sem áttu að koma til móts við versnandi stöðu og afkomu heimilanna, eru torsóttar eða við getum orðað það sem svo að þær taki tíma og fyrirhöfn. Það má kannski líka segja að við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag sé út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að hlutirnir geti verið tímafrekir en eftir sem áður held ég að það sé margt til í því að þrátt fyrir þessar aðgerðir og þessi úrræði sé staða mjög margra heimila mjög bágborin og erfið og því verði að grípa til frekari ráðstafana í þessum efnum. Hér hefur aðeins verið talað um almennar aðgerðir — já, auðvitað þurfa aðgerðir af þessum toga að vera almennar, en við megum heldur ekki gleyma því að við verðum að horfa rækilega á það hvernig við nýtum það fjármagn sem verður nýtt í þessu skyni svo það komi til móts við þá sem raunverulega þurfa á því að halda en ekki endilega á hvern þann sem hafa vill ef svo má að orði komast. Við vitum að það eru ekki alveg allir sem þurfa á slíkri fyrirgreiðslu að halda en þetta eru auðvitað atriði sem þyrfti að setjast betur yfir og skoða.

Hér er talað um atvinnuleysið og ég held að við séum öll sammála um að það er eitt mesta bölið sem við er að glíma. Í greinargerð með tillögunni er talað um að nú séu um 19.000 manns skráðir atvinnulausir. Hæstv. iðnaðarráðherra upplýsti hér í utandagskrárumræðu í dag að það væru um 16.000, þar af um 3.000 á hlutabótum. Mér finnst mikilvægt að við vitum nákvæmlega hvaða tölur eru réttar í þessu efni því að vísbendingar hafa verið um að aukning atvinnuleysis hafi í raun verið að stöðvast. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt. En þetta er að sjálfsögðu stóra viðfangsefnið og ég tek undir það með tillöguflytjendum að sérstaklega þarf að leita leiða til að sporna gegn því.

Hér er talað um bæði fyrirtækin og bankakerfið og um það er að segja að það er í gangi vinna á vegum stjórnvalda við eigendastefnu fyrir bankakerfið, stefnu um það hvernig eigi að koma þessum eignum aftur út á markað og stefnumótun um það hvort ríkið ætlar með einhverjum hætti að vera þátttakandi í fjármálastarfsemi til millilangs tíma eða jafnvel til lengri tíma. Þetta er auðvitað álitamál sem þarf að skoða. Við þekkjum það hvernig Norðmenn og Svíar hafa farið að eða fóru að eftir bankakreppuna hjá sér og það eru leiðir sem við hefðum viljað skoða betur.

Ég ætla ekki að fara hér inn í lífeyrissjóðamálið sem Sjálfstæðisflokkurinn er með í tillögum sínum, til þess er tíminn of skammur, en minni bara á að eftir því sem ég best veit hafa komið fram viðbrögð frá aðilum vinnumarkaðarins sem ekki tala beinlínis fyrir þessari leið. En við þær aðstæður sem við búum við í dag tel ég skylt að skoða allar tillögur í þaula.

Af því að tíminn hleypur frá mér vil ég aðeins segja um peningamálastjórnunina: Það er markmið þessarar ríkisstjórnar — það fer saman við áherslur í tillögum Sjálfstæðisflokksins — að endurskoða peningamálastefnuna og fara yfir það hvar hún hefur brugðist, kosti hennar og galla, m.a. með tilliti til framtíðar gjaldmiðilsmála. Í sjálfu sér held ég að þarna sé enginn ágreiningur um að þetta þurfi að skoða til hlítar og þegar kemur að gjaldeyrishöftunum og vaxtamálunum þá held ég líka að í sjálfu sér sé enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna um að afnema þurfi gjaldeyrishöftin sem fyrst, en þó þannig að það raski ekki því jafnvægi sem þarf að vera á þessum markaði. Við verðum að vera viss um að þau skref sem við stígum leiði til þess sem til er ætlast.

Ég vil svo rétt í lokin, frú forseti, segja það að ég tel að fullur vilji sé til þess hjá ríkisstjórnarflokkunum að taka frumkvæði af þessum toga fagnandi. Boðað hefur verið til fundar þar sem fulltrúar stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna hafa setið saman við borð ásamt aðilum vinnumarkaðarins og ég tel að það sé mjög mikilvægt. Ég tel reyndar að við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu sé ekkert boðlegt fyrir þjóðina annað en að stjórnmálaöflin í landinu taki höndum saman með þeim hætti sem þau best geta með aðilum á vinnumarkaði og með atvinnulífinu, með samtökum launþega, til þess að finna þær leiðir sem eru bestar og greiðastar út úr þeirri ófæru sem við sannarlega erum í. Það verður áreiðanlega torsótt og það mun taka tíma og við þurfum að horfast í augu við það en það er mikilvægt verkefni og þar eigum við öll að leggjast á (Forseti hringir.) árar.