138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Ég fullyrði það, eftir að vera búinn að hlusta á umræðurnar, að aldrei áður hefur heilbrigðisráðherra haft jafnmikinn stuðning við að fara í nauðsynlegar aðgerðir og núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hefur. Það er algjörlega ljóst þegar við hlustum á þessar ræður, og ég tek bara ræður hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, og í rauninni töluðu allir aðrir á sömu nótum, að það er samstaða um að nú þurfum við að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna. (Gripið fram í.) Við verðum að forgangsraða þannig að það sé tryggt að það sé þjónusta fyrir alla þegar þeir þurfa á henni að halda og við vitum alveg hvað það þýðir. Það þýðir að það þarf að taka ákvarðanir sem oft eru erfiðar en þær eru nauðsynlegar til þess að við getum haldið uppi þessu þjónustustigi.

Hv. þm. Þráinn Bertelsson bendir réttilega á að við getum verið stolt af heilbrigðisþjónustunni okkar. Við erum í 3. sæti í heiminum og við getum haldið okkur nálægt því þrátt fyrir að við þurfum að fara í nauðsynlegar sparnaðaraðgerðir, en þá þurfum við að hafa pólitískt þrek og vilja til að taka nauðsynlegar ákvarðanir.

Hæstv. ráðherra sagði eitt hér áðan sem stendur upp úr, að það væri miður að tillögur Huldu Gunnlaugsdóttur hefðu ekki verið komnar inn fyrir fjárlögin. Nú er það bara einn aðili sem ræður því, virðulegi forseti, það er hæstv. ráðherra, og ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli eftir. Hæstv. ráðherra er í þeirri einstöku stöðu að vera með þverpólitískan stuðning í þinginu við það að fara í þetta nauðsynlega og svo sannarlega ekki auðvelda verkefni.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og hvet hæstv. ráðherra til dáða, hún fær stuðning okkar til að gera nauðsynlega hluti.