138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sama hátt segi ég nú bara hér úr þessum ræðustól: Ekki get ég áttað mig á því út af hverju hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir beindi þessum orðum til mín, því ég talaði almennt um að hv. þm. væri að ala hér upp þingmenn, en beindi því ekki sérstaklega til mín eða annarra.

Það er klifað á þessum kjarki, djörfung og þori sem hv. þingmaður telur að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir búi yfir og noti óspart í þessum niðurskurði. Ég sé ekki málið með þeim augum, því eins og ég sagði áðan þá er verið að grípa til gamalla, löngu úreltra tillagna og aðgerða sem hafa verið notaðar hér í fjölda ár og virka ekki. Þessi ríkisstjórn þarf að horfa út fyrir kassann og koma með nýjar og djarfar tillögur til þess að hlífa heimilunum í landinu. Ég minni aftur á tillögur sjálfstæðismanna með innsköttun á lífeyrissjóðsgreiðslur. Þannig væri hægt að koma með á milli 30 og 60 milljarða og heimilin mundu ekki finna fyrir því og niðurskurðurinn yrði ekki (Forseti hringir.) nærri eins harður.