138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að vera ekki tiltekinn þingmaður. En ég tek undir það sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir að ríkisstjórnin byggir fjárlagafrumvarpið á ákveðnum ramma, ákveðinni stefnu sem hún leggur upp með. En hins vegar er fjárlagafrumvarpið þannig úr garði gert að það hefur trúlega aldrei verið jafnófrágengið þegar það kemur inn í þingið og þess vegna verðum við að ætla að að því leyti sé meira svigrúm til þess að gera breytingar en oft áður. Nú getur það verið bæði til góðs og ills. Það er trúlega um að ræða ofmat á tekjumöguleikum og annað þess háttar sem þarf að taka tillit til.

En varðandi það verkefni sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi, að gera tillögur um aukningu útgjalda á sumum sviðum og meiri niðurskurð á öðrum sviðum, þá held ég að það sé spennandi verkefni sem við eigum núna fram undan á næstu tveimur mánuðum, en þar held ég að sé hægt að gera heilmikið.