138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp dómsmálaráðherra þar lagt er til að héraðsdómstólum verði fækkað í einn. Mér finnst þessi umræða hafa verið mjög málefnaleg þó að við höfum sitt hvora sýnina á hlutina, en ég verð að segja fyrir mitt leyti að heilt yfir hafa umræðurnar verið mjög málefnalegar.

Fram hefur komið og hæstv. dómsmálaráðherra sagði það í ræðu sinni að það væri ekki verið að spara svo mikið heldur fælist þetta eingöngu í hagræðingu. Ekki er ég sá aðili sem mælir gegn því að menn hagræði í rekstri og menn þurfa að gera það. En hins vegar hefur verið bent á í umræðunni að hugsanlega er hægt að hagræða á annan hátt. Hægt er að færa verkefni til þessara dómstóla til að jafna álagið eins og sagt er, það er mismunandi álag á dómarana sjálfa. Það kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar, sem hefur mikla þekkingu á þessum málum, að ef menn vildu hugsanlega breyta lögum um rafræn samskipti gætu menn fært þessi verkefni til og þar af leiðandi skotið styrkari stoðum undir þá héraðsdómstóla sem eru starfandi úti á landsbyggðinni.

Ekki þarf að fara í neinar grafgötur um það, alveg sama hvað okkur finnst, að á ferðum mínum í kjördæmavikunni í síðustu viku kom mikill ótti fram hjá landsbyggðarfólki gagnvart þessum breytingum, ekki eingöngu þeirra sem vinna við þetta heldur líka hjá íbúunum sjálfum vegna þess að þeir hafa þá ekki sama aðgang að réttarfarskerfinu. Um það er ekki deilt.

Þá finnst mér, frú forseti, vanta nánari útfærslu og margir hv. þingmenn hafa tekið undir það að æskilegt væri að í frumvarpinu lægi fyrir meiri heildarsýn á málin, t.d. hvar þessir héraðsdómstólar eigi að vera staðsettir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að dómstólaráð eigi að skipa þeim verkum eftir þörfum og þá veltir maður fyrir sér, er það breytileg þörf eða hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Það liggur ekkert fyrir hvort eigi að vera einn hér eða þar, það er allt í óvissu. Mér finnst það mjög dapurlegt. Ég verð að segja, frú forseti, að þegar menn fara í svona breytingar, eins og hér er verið að fara í undir því yfirskini að hagræða, þá á heildarsýnin að ná lengra. Menn eiga að vera búnir að segja: Þetta er nákvæmlega það sem við ætlum að gera. Við ætlum að hafa þetta svona. Hér verður starfandi héraðsdómstóll og hér o.s.frv., vegna þess að það sem verið er að gera líka með þessu er að verið er að setja allt starf allra héraðsdómstóla í landinu í uppnám. Um það verður ekki deilt. Allt það fólk sem starfar þar innan dyra er óöruggt um framtíð sína og það gefur augaleið. Það er ekki gott í þessu árferði sem nú er og yfirleitt aldrei náttúrlega.

Síðast en ekki síst kemur fram hjá ríkisstjórninni og ég geri ekkert lítið úr því að menn vilja forðast uppsagnir. Þá hefði maður séð fyrir sér að menn væru búnir að vinna málin lengra og sæju nákvæmlega fyrir sér hvar þeir ætluðu að enda en ekki setja þetta inn með þessum hætti núna, á síðustu vikum ársins, þó svo ég geri mér fulla grein fyrir því, frú forseti, að auðvitað munu þessar hagræðingarkröfur ekki ná inn á árið 2010, vegna þess að það vita allir að segja þarf upp fólki og gera starfslokasamninga, menn hafa biðlaun, menn eru með húsnæði á leigu og þar fram eftir götunum. Þetta gerist ekki eins fljótt og menn kannski ætla. Það tekur marga mánuði að komast í pípurnar. Þess vegna hefði ég talið að menn mundu hafa gert þetta öðruvísi til að menn sæju fyrir endann á hvert þeir væru að fara. Ég deili þeim áhyggjum með mörgum þingmönnum úti á landsbyggðinni og það er einu sinni þannig, frú forseti, að staðreyndirnar eru þær og sporin auðvitað hræða okkur. Ég er ekki að gera lítið úr því að ekki eigi að byggja upp stjórnsýslu í Reykjavík, en hún er bara öll í Reykjavík og það er reynsla mín sem sveitarstjórnarmanns að þurfa að berjast fyrir hverju starfi með kjafti og klóm til að ná því út af höfuðborgarsvæðinu. Það er hinn kaldi veruleiki. Síðan gerist hvað? Við sjáum þetta í svo mýmörgum dæmum. Við skulum segja að við horfum einhver ár fram í tímann og þessi stóri dómstóll sem er búinn að setja niður átta starfsstöðvar, eða hvað það er, eftir þörfum úti á landsbyggðinni þurfi að fara að hagræða, þá er reynslan sú að menn skera alltaf frá sér. Það er hinn kaldi veruleiki, alveg sama hvort það er í þessu ráðuneyti eða einhverju öðru og við sjáum þetta mjög víða. Maður hræðist þessa aðferðafræði. Þess vegna velti ég fyrir mér, frú forseti, hvort ekki hefði verið eðlilegra að vinna málið lengur og menn sæju fyrir sér hvert þeir stefndu. En ég fagna því hins vegar að hv. þingmenn sem sitja í allsherjarnefnd, sem er einstaklega vel skipuð að þeirra eigin sögn, munu skoða málið. Hafa þeir lýst því yfir í ræðustól Alþingis að þeir munu skoða málið mjög vel og ég fagna því og tel að þar eigi menn ekki að dragast í einhverja pólitíska dilka út frá þessu.

Síðan langar mig að vekja athygli á einu, frú forseti, sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og ég hef reyndar gert það áður, reyndar ekki á sömu blaðsíðunni, þar sem verið er að vitna í ákveðna vinnu sem er verið að vinna og ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa þetta:

„Við endurskipulagningu opinberrar þjónustu og stjórnsýslu verður horft til framtíðar og hugað að uppbyggingu opinberrar þjónustu um allt land. Í sóknaráætlun 20/20, sem nú er í mótun á vegum ríkisstjórnarinnar, er unnið að skilgreiningu samræmdrar svæða- og umdæmaskiptingar landsins. Á þeim grunni verður þess freistað að ná fram samþættingu ýmissa áætlana ríkisins sem snúa að uppbyggingu til framtíðar. Samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum verður landinu skipt upp í 6–7 svæði og stefnumótun og áætlanir í tilteknum málaflokkum sem varða uppbyggingu landsins munu taka mið af þeirri skiptingu.“

Frú forseti. Þessi vinna er í gangi og því velti ég fyrir mér enn og aftur af hverju menn klári hana ekki þó að ég hafi reyndar ekki mikla trú á henni. En látum hana njóta sannmælis. Af hverju eru menn að vitna í texta í fjárlagafrumvarpinu til einhverrar vinnu sem er ekki lokið? Það er heildarsýnin, hvernig byggja á upp opinbera starfsemi úti á landi, hvort heldur það eru dómstólarnir, sýslumennirnir eða lögregluembættin eða hvað sem það er, þá finnst mér að menn eigi að klára vinnuna. Mér finnst menn vera komnir einu skrefi of langt hérna. Ég verð að viðurkenna það, frú forseti, mér finnst að menn eigi að vanda betur til verka.

Mig langar líka að velta því upp sem reyndar kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra að ekki er gert ráð fyrir neinum sparnaði heldur hagræðingu þó svo það stangist reyndar á við það sem kemur fram hjá fjármálaráðuneytinu um að fara eigi fram sparnaður við þessar aðgerðir, þá liggur það ekki fyrir og það er ekkert útfært. Það er sagt að sparnaður muni hljótast af þessu en ekki eru færð fyrir því nein rök hvernig það eigi að fara fram. Þá verður maður að segja, frú forseti, að maður getur í raun og veru ekki tekið mark á því.

Mig langar einnig að koma aðeins betur inn á hvaða þýðingu þetta hefur fyrir landsbyggðina burt séð frá því hvort menn eru þingmenn landsbyggðarinnar eða ekki. Ég tek alveg undir með hv. þm. Atla Gíslasyni þegar hann sagði áðan að sumir þingmenn höfuðborgarinnar hefðu ekki oft þennan skilning eða vantaði skilning á því hvað væri að gerast á landsbyggðinni, eins og þeir reyndar hafa oft sakað okkur landsbyggðarþingmenn að hafa ekki skilning á uppbyggingunni á höfuðborgarsvæðinu. En það er eðlileg umræða og rökræða sem við verðum að taka.

Það er staðreynd, frú forseti, að ef menn fara í þær aðgerðir að breyta þessu og leggja þetta niður og sameina í eina stóra stofnun fyrir sunnan þá mun það hafa mjög miklar breytingar á landsbyggðinni. Það eru staðreyndir sem er ekki hægt að deila um, t.d. gagnvart því að menn hafi réttarfarslegt öryggi, þ.e. þeir sem búa úti á landsbyggðinni versus það að síðan er búið að byggja upp margar — lögfræðingar hafa sest að á landsbyggðinni, unnið við þetta og verið síðan í öðrum störfum með, kannski hlutastarfi í héraðsdómstólunum eða sýslumannsembættunum o.s.frv., en reka skrifstofur sínar kannski í einhverju minna starfshlutfalli. Auðvitað er þetta spurning um það að menn hafi þá búið við svipað réttarfarslegt öryggi og aðgang að þessari þjónustu.

Það sem gerist líka er að ef einhver lendir í því t.d. að þurfa að sækja til dómstólanna, það eru ekki endilega alltaf þeir sem brjóta lögin sem betur fer kannski, þá er það einu sinni þannig að menn sækja rétt sinn kannski gagnvart tryggingafélögum eða hverju sem er, ef menn fækka þessum starfsstöðvum og ætla að draga úr akstri og öðru þá mun það færast til. Það mun færast yfir á þá sem þurfa að sækja þjónustuna, jafnvel vitni sem þurfa að koma fyrir dóminn og síðast en ekki síst ef menn þurfa að fá dæmda refsingu vegna brota, þá kemur þetta inn á lögregluembættin. Ég hefði viljað sjá, frú forseti, að menn hefðu tekið þessi skref lengra áður en þetta var lagt fram með þessum hætti. Ég er hins vegar ekki að halda því fram að það sé einhver einbeittur vilji hæstv. dómsmálaráðherra að vera eitthvað að níðast á landsbyggðinni, ég er alls ekki að halda því fram. En ég held að betra hefði verið að ígrunda málið betur.

Ég vil aðeins í lokin, það er búið að fara mjög mikið yfir þetta mál í dag, skora á og treysti því náttúrlega, ég þarf ekki að skora á hv. allsherjarnefnd að skoða þessi mál alveg í heild sinni, hverjar þessar afleiðingar verða í raun og veru fyrir uppbygginguna á landsbyggðinni og skoða líka þá hagræðingarkröfu sem er í frumvarpinu, því þetta getur haft mjög miklar afleiðingar gagnvart landsbyggðinni. Menn mega heldur ekki gera lítið úr því þó maður detti inn á landsbyggðargír að þetta breytir samfélögum. Í eitt lítið samfélag úti á landi þarf kannski örfáa einstaklinga með góða menntun eða langskólagengna, ef ég má orða það svo, sem í raun og veru breyta því. Samfélögin breytast. Við höfum séð mýmörg dæmi um það, um það þarf ekki að deila.

En rétt í lokin vil ég skora á hv. allsherjarnefnd, sem ég veit að mun fara mjög vandlega yfir þessi mál, að gera það á þann hátt að hún skoði það alveg ofan í kjölinn hvað þetta þýðir í raun og veru og eins líka út frá því að menn fari þá ekki með þetta lengra fyrr en búið er að ákveða, í þessu frumvarpi hugsanlega, hvar þessir dómstólar eigi að vera. Einnig skora ég á hana að skoða mjög vandlega þær hugmyndir um að hægt sé að styrkja héraðsdómstóla með því að færa til þeirra verkefni og þá hugsanlega að breyta lögum, eins og hv. þm. Atli Gíslason kom inn á áðan, sem væri hægt að gera til að menn gætu byggt þetta upp með frekari rafrænum samskiptum og skoði það með þeim hætti að niðurstaðan verði góð fyrir land og þjóð.