138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:48]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér í þriðja sinn frumvarp til laga um persónukjör. Hér er lagt til að rætt verði samtímis um persónukjör til Alþingis og til sveitarstjórna. Ég gerði það að gamni mínu í dag þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu, að fara á netið og gúggla orðið „persónukjör“. Það var mjög margt merkilegt sem kom út úr því sem staðfestir að það eru mjög margar og miklar skoðanir uppi um það hvað fólk telur vera persónukjör. Það sem einn telur vera persónukjör telur annar ekki vera persónukjör. Ég mun koma inn á það á eftir.

Það er mjög eðlilegt, í ljósi þeirra hamfara sem gengið hafa yfir íslenskt samfélag, að krafa sé komin upp um persónukjör og aukið lýðræði. Ég fagna því auðvitað. Þetta frumvarp, eins og frumvarp um stjórnlagaþing, er sprottið upp úr fundum og mótmælum sem áttu sér stað á liðnum vetri, mótmælum sem byggðu á kröfu um kerfisbreytingar og meiri aðkomu að því að fólk fengi að velja einstaklinga inn á löggjafarsamkomuna.

Eins og ég sagði í upphafi ræðum við þetta mál í þriðja sinn. Það var lagt hér fram í fyrsta skipti í mars 2009. Þá var mikil umræða um það úr öllum flokkum, aftur í sumar og svo núna. Það komu auðvitað fram ýmsar athugasemdir um útfærsluna, vegna þess að fólk hefur mjög mismunandi skilning á því hvað persónukjör er.

Í umræðunni síðasta sumar kom m.a. fram að menn töldu að athugasemdir frá ÖSE, um framkvæmd kosninga á Íslandi — þar sem ÖSE benti á að breytingar á kosningalögum mætti ekki gera innan við ári áður en kosningar ættu að fara fram. Menn voru mjög uppteknir af því í umræðunni þá en ég vil nefna það hér að það er byggt á reynslu annarra þjóða. Það er byggt á þeirri reynslu annarra þjóða að svo veigamiklar breytingar þurfi að undirbúa vel, bæði gagnvart flokkum og einstaklingum sem ætla að bjóða sig fram og ekki síður gagnvart kjósendum, og að það sé alveg skýrt hvernig hið nýja kerfi eigi að vera.

Auðvitað er það þannig, frú forseti, að það er ekkert nýtt undir sólinni og persónukjör hefur verið viðhaft í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi um langa hríð. Allt fram til ársins 1994 var meiri hluti sveitarstjórnarmanna hér á landi kjörinn óhlutbundinni kosningu, þ.e. með persónukjöri, þar sem fólk í litlum sveitarfélögum úti á landi — og þá prófkjörsaðferð eða persónukjörsaðferð þekkja örugglega margir hér inni — ritaði nöfn fimm valinkunnra sveitunga sinna sem þeir vildu fá inn í sveitarstjórn og fimm varamanna, og þessir aðilar voru kosnir persónukjöri inn í sveitarstjórnir. Þetta er ekkert nýtt.

Kjósendur höfðu líka þann kost að endurraða frambjóðendum á lista við hlutfallskosningar með því að númera upp á nýtt og að auki átti kjósandi þann neikvæða kost að strika menn út af listum. Sú aðferð hefur ekki dugað til, ef svo má að orði komast, í sveitarstjórnum hingað til, vegna þess að það þarf svo margar útstrikanir til þess að fella fólk út af listum eða færa það niður um sæti. Hins vegar var kosningalögum um kosningar til Alþingis breytt árið 2000 og áhrif kjósenda aukin, þannig að hægt var að hafa raunveruleg áhrif á röð frambjóðenda til Alþingis. Við þekkjum það að á þingi sitja t.d. einstaklingar sem lentu í það mörgum útstrikunum að þeir færðust niður um sæti. Ég tel það reyndar mjög afleita nálgun. Það snýst sem sagt um neikvæða upplifun kjósandans af því að fara inn í kjörklefann. Hann er ekki að númera, hann er ekki að segja skoðun sína, hann er ekki að segja jákvæða skoðun sína á einstaklingnum, heldur er hann að segja neikvæða skoðun sína á einstaklingnum með því að strika hann út og það eina sem gerist er að menn færast niður um sæti.

Það eru ýmsar útgáfur til af persónukjöri út um allan heim, sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu en ég get ekki á þessum stutta tíma hér farið yfir það. Það má segja að sums staðar sé persónukjörskerfi þar sem kjósendur geta valið frambjóðendur þvert á flokka eða lista eins og á Írlandi og Möltu og víðar. Á Íslandi höfum við það sem kallað er „lokaða flokkslista“, þar sem flokkarnir hafa raðað upp og menn hafa bara þurft að kjósa flokka og þá einstaklinga sem þar eru.

En það er mjög fróðlegt að skoða reynsluna, sérstaklega af Norðurlöndunum, af þessum mismunandi kosningakerfum. Í Svíþjóð eru listar t.d. raðaðir flokkslistar þar sem kjósandi má setja kross við einn frambjóðanda á listanum sem kosinn er og frambjóðandinn þarf þá að komast yfir 5% þröskuld til þess að persónuatkvæðin hafi áhrif. Kjósendum sem taka þátt í persónukjöri í Svíþjóð hefur þó farið mjög fækkandi eftir að kerfið var tekið upp árið 1998. Þá nýttu ríflega 35% kjósenda möguleikann til persónukjörs við sveitarstjórnarkosningar, en í kosningunum 2006 eingöngu 28%.

Í Danmörku eru listar ýmist raðaðir eða óraðaðir. Aðeins má setja einn kross á kjörseðilinn, annaðhvort við lista eða frambjóðanda, og kross við frambjóðanda telst til atkvæða listans. Síðan eru þar óraðaðir listar. Þar ræður fjöldi krossa við nafn endanlegri röð frambjóðenda, en kross við nafn á röðuðum flokkslista hefur ekki sama vægi, enda fá efstu menn nokkra forgjöf frá viðkomandi flokki eða framboðslista. Í Danmörku hefur óröðuðum listum fjölgað og þátttaka kjósenda í vali á frambjóðendum farið vaxandi, en allt frá árinu 1990 hefur helmingur þeirra nýtt sér þennan rétt. Þannig að það er ekki alveg sama reynsla af þessum tveimur Norðurlöndum varðandi það hvernig menn nýta sér rétt til persónukjörs.

Í Noregi eru raðaðir flokkslistar en kjósendur geta haft áhrif á endanlega röð með því að setja kross við einn frambjóðanda eða fleiri og flokkurinn getur þá varið efstu menn með því að setja á það atkvæðaálag, sem getur numið allt að 25% af atkvæðum listans. Þar er kjósanda reyndar heimilt að veita frambjóðendum af öðrum listum persónuleg atkvæði með því að rita nöfn þeirra neðst á kjörseðil, en það skerðir þó atkvæði listans sem kosinn er. Það þýðir að það fylgir því pólitísk ábyrgð að ýta undir frambjóðendur á öðrum listum.

Í Finnlandi er kosningakerfi dæmi um listakosningu þar sem persónukjör hefur mjög mikið vægi. Listar eru í stafrófsröð og eru aðeins til upplýsinga fyrir kjósendur um það hverjir eru í framboði og hver númer frambjóðenda eru. Listar eru ekki prentaðir á kjörseðil heldur rita kjósendur númer þess eina frambjóðanda sem þeir kjósa á seðilinn. Um leið eru þeir að greiða þeim lista sem frambjóðandinn tilheyrir atkvæði sitt. Fjöldi atkvæða hvers frambjóðanda ræður endanlegri röðun og listinn fær samanlögð atkvæði allra frambjóðenda sem tilheyra viðkomandi lista.

Þetta eru ýmsar útfærslur á persónukjöri. Sú niðurstaða sem varð í samráðshópi sem vann þessar hugmyndir sem fóru til ráðuneytisins var sú að það var ekki almennur vilji hjá fulltrúum þingflokkanna þar að ganga svo langt að þessu sinni að heimila kjósendum að forgangsraða frambjóðendum þvert á lista. Mín skoðun er hins vegar sú að raunverulegt persónuval sé fyrst og fremst þegar menn geta farið og krossað við fólk á milli lista. Það er raunverulegt persónuval. Ekki er gengið svo langt í þessu frumvarpi, því að samstaða náðist um að stíga lítil skref í einu og fara fram með þetta með þeim hætti sem gert er hérna. Þess vegna má halda því fram að ekki sé með neinu móti verið að hrófla við listakosningu og hlutfallskosningakerfi hér á landi. Eingöngu er lagt til að kjósendum verði gefið fullt vald til að velja þá fulltrúa sem þeir vilja helst að nái kjöri af þeim lista sem þeir veita atkvæði sitt.

Þá erum við kannski komin að pólitíkinni í þessu máli. Mér fannst það athyglisverðar hugmyndir sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér áðan. Og af því menn hafa nú verið uppteknir af flokksræði og völdum flokkanna og talað um það með frekar neikvæðum formerkjum er ágætt að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta frumvarp hefur fyrir flokkana. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um að markmiðið sé að draga úr flokksræði. Það kann að vera kostur út af fyrir sig, mörgum kann að þykja það kostur. En í mínum huga er það líka þannig að það verður að passa upp á að persónukjör yfirskyggi ekki hreinar línur í málefnaumræðu í kosningabaráttunni. Því munum það að einstaklingar eru á ábyrgð flokka en ekki öfugt.

Á síðu 17 í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Líklegt má telja að persónukjör hafi einhver áhrif á flokkseiningu og flokksaga í stjórnmálaflokkum og rannsóknir styðja þá niðurstöðu.“

Hvað þýðir þetta raunverulega? Að þetta muni hafa þau áhrif að flokkseiningar muni riðlast. Jú, þetta hefur þau áhrif að þetta dregur úr möguleikum flokkanna til að ákveða sjálfir hvaða fulltrúar þeirra nái kjöri í kosningum.

Þá erum við komin að því sem lýtur að prófkjörum og persónukjöri. Ég er sannfærð um að prófkjör eins og við þekkjum þau, í þeirri mynd sem við þekkjum þau úr stóru flokkunum, þar sem hafa verið galopin prófkjör, eru meingölluð fyrirbæri. Sjálf hef ég gengið í gegnum sex prófkjör með mismunandi formerkjum, allt frá því að vera lokuð flokksprófkjör, upp í það að vera galopin prófkjör fyrir alla Reykvíkinga. Galopin prófkjör, þar sem fólk hefur komið til að kjósa einstaklinga, fólk sem hefur kannski aldrei ætlað sér að kjósa þessa einstaklinga fyrir tiltekna flokka, af því það hefur ekki haft trú á þessum flokkum. Það hefur komið og kosið einstaklingana af því einstaklingurinn hefur kannski verið einhvern tímann með þeim í skóla, eða spilað með þeim fótbolta, eða verið með þeim í saumaklúbb, eða þekkir maka, bræður eða systur viðkomandi. Þannig hefur þetta virkað hingað til, og ég velti því fyrir mér hvaða lýðræði er fólgið í þessari aðferðafræði.

Ég velti þessum sjónarmiðum upp hér. Ég velti líka upp sjónarmiðum varðandi peningasjónarmiðin í þessu máli. Eins og þetta lítur út sýnist mér einsýnt að prófkjörin, galopnu prófkjörin eins og við þekkjum þau í dag með öllum sínum göllum, vil ég leyfa mér að segja, þau flytjast inn í kjörklefann, þau flytjast fram á kjördag. Þá má líka velta því fyrir sér hvaða áhrif það hefur á þá einstaklinga sem taka þátt í því, hvaða áhrif það hefur á þá flokka sem þeir einstaklingar fara fram fyrir, því að einstaklingarnir, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti hér á, fara jú væntanlega fram fyrir einhverja flokka. Ekki fer einstaklingurinn Steinunn Valdís Óskarsdóttir fram á sínum eigin vegum og býður sig fram án þess að vera samþykk stefnu Samfylkingarinnar, geri ég ráð fyrir. Þú verður að geta treyst því að þeir einstaklingar sem eru þarna standi fyrir einhver sjónarmið, þeir standi fyrir einhverja hugmyndafræði, þú getir treyst því að allir þessir einstaklingar sem hópur hafi um það bil sömu lífsskoðanir og sömu pólitík og sömu hugmyndafræði.

En markmiðið með frumvarpinu er mjög gott. Ég er að mörgu leyti mjög ánægð með það. Það eru hins vegar ýmsir gallar á því sem ég tel að við eigum að skoða og við eigum að sníða af. Við viljum jú öll, alla vega í orði, efla lýðræðið og leyfa fólki að koma að því að velja sína fulltrúa. Þetta mun síðan verða tekið til skoðunar í allsherjarnefnd og farið yfir þetta. Ég nefndi það hér fyrr í þessum mánuði, þegar ég var spurð að því í fyrirspurnatíma hvort ég teldi að þetta frumvarp mundi ná fram að ganga eða verða að veruleika — ég veit ekkert um það, get í sjálfu sér ekki svarað því á þessari stundu.

Að sjálfsögðu stefnum við að því að afgreiða þetta mál frá okkur með einhverri tiltekinni tillögu. Ég veit ekkert hver sú tillaga er, en ég benti hins vegar á það í þeirri umræðu að mér finnst alveg koma til greina, ef ekki næst pólitísk samstaða — vegna þess að mér finnst það skipta máli þegar við erum að breyta kosningalögunum að þokkaleg samstaða sé um breytingarnar. Vegna þess að það er svo erfitt að knýja fram breytingar á kosningalögum ef það er mikil óánægja og miklar skoðanir um það að við hefðum átt að taka upp þetta kerfi en ekki hitt kerfið. Ég hef nefnt það að mér finnst koma til greina í næstu sveitarstjórnarkosningum t.d. að þeim sveitarfélögum sem vilja fara þá leið sem lögð er til í frumvarpi til laga um persónukjör í sveitarstjórnum verði hreinlega gefin heimild til þess, reglugerðarheimild til þess, að prufukeyra það. Ef aukinn meiri hluti er fyrir því í viðkomandi sveitarfélagi að fara þá leið þá finnst mér það koma til greina.