138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi frumvörp hafa verið lögð fram. Persónukjör er lýðræðisbót vegna þess að það veitir kjósandanum aukin völd í kjörklefanum. Kjósandinn mun hafa meiri áhrif á það en hingað til hverjar eða hverjir veljast til þeirra starfa sem kosið er til.

Sumir gera lítinn greinarmun á prófkjörum og persónukjöri og segja hið seinna framlengja prófkjör fram á kjördag eða prófkjörsbaráttu fram á kjördag. Í mínum huga gera tvö veigamikil atriði það að verkum að ekki er hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu. Í fyrsta lagi tel ég persónukjör vera réttindi sem beri að tryggja kjósanda í lýðræðisríki. Þess vegna er ekki forsvaranlegt að setja það í hendur stjórnmálaflokkanna að ákveða með hvaða hætti þessi réttindi eru veitt, þ.e. hvert er fyrirkomulag prófkjöra.

Í annan stað er stjórnmálaflokkunum það í sjálfsvald sett hvort þeir halda prófkjör eða ekki. Jafnvel þó að skráð sé í reglur flokkanna að halda skuli prófkjör liggur í augum uppi að tiltölulega auðvelt er að breyta því og þeir sem ekki eru í flokkunum, þ.e. óflokksbundnir, sem eru reyndar meiri hluti kjósenda, hefðu ekkert um það að segja. Við þetta má bæta að í flestum tilfellum er þátttaka í prófkjörum bundin við þá sem skráðir eru í flokk eða lýsa yfir stuðningi við þá og þar með yrðu réttindi þeirra sem vilja vera óflokksbundnir eða halda pólitískum skoðunum fyrir sig minni en hinna að þessu leyti.

Ég ætla að víkja stuttlega að áhrifum prófkjörs á fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, um áhrif persónukjörs á endurnýjun á kjörnum samkomum og loks um persónukjör og kynjahlutföll kjörinna fulltrúa. Það liggur í augum uppi að það verður flóknara að halda utan um fjármál flokka ef persónukjör er innleitt en ef stjórnmálaflokkar stilla upp framboðslistum á flokksskrifstofum. Mér þykir þó fráleitt að halda að erfiðara sé að hafa skikk í þeim efnum við persónukjör en við prófkjör eins og þau tíðkast í dag. Fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hafa ekki að ósekju verið til umræðu undanfarið. Við höfum vítin til að varast í þeim efnum og eðlilegt er að reglur um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna verði endurskoðaðar ef sú lýðræðisbót næst að koma á persónukjöri.

Því er haldið fram að endurnýjun verði minni og auðveldara verði fyrir þá sem fyrir eru að ná kjöri ef um persónukjör er að ræða en ef flokkarnir stilla upp. Rannsóknir hafa sýnt að sitjandi þingmenn og sveitarstjórnarmenn hafa meiri möguleika til að ná kjöri en nýliðar hvert sem kosningakerfið er. Þó hefur verið sýnt fram á að meiri endurnýjun á sér stað þegar listar eru boðnir fram, þ.e. í hlutfallskosningum, en í einmenningskjördæmum. Einnig hefur verið sýnt fram á að endurnýjun er meiri í stærri kjördæmum en minni. Engar rannsóknir sem ég hef rekist á sýna að persónukjör hafi einhver sérstaklega neikvæð áhrif í þessum efnum. Eina leiðin til að tryggja endurnýjun er væntanlega sú að setja hámark á þann tíma sem fólk má gegna stöðum eða embættum sem kosið er til.

Vangaveltur hafa verið uppi um hvort persónukjör hafi áhrif á hlut kvenna á þjóðþingum eða í sveitarstjórnum. Undirliggjandi tónn í slíkum vangaveltum er oft að konur eigi frekar á brattann að sækja í persónukjöri en þegar flokkar ráða alfarið röð á listum. Réttilega er sagt að núverandi stjórnarflokkar hafa lagt mikla áherslu á sem jöfnust kynjahlutföll og sett sér reglur til að tryggja það.

Nauðsynlegt er að halda sig við staðreyndir þegar talað er um þessi efni eins og alltaf reyndar. Engar rannsóknir liggja fyrir um hvort persónukjör hefur áhrif á hlut kvenna í kosningum til þings eða sveitarstjórna og því er í raun ekkert ákveðið svar til við spurningunni. Bent hefur verið á að hlutur kvenna á þjóðþingum á Norðurlöndum er mikill í samanburði við aðrar þjóðir og þar er persónukjör við lýði. Áhrif kjósenda á hverjir ná kjöri eru mikil í Finnlandi og nokkur í Svíþjóð og Danmörku. Hlutur kvenna á þjóðþingi Írlands er vissulega ekki mikill en líkur eru á að það megi frekar rekja til annarra þátta í írsku þjóðfélagi en til kosningafyrirkomulagsins. Kjör Mary Robinson sem forseta Írlands hefur einmitt verið notað sem kennslubókardæmi um hvernig atkvæði nýtist í írska kosningakerfinu þar sem vald kjósandans í kjörklefanum er mjög mikið og það er einmitt það kerfi sem lagt er til í því frumvarpi sem við fjöllum um.

Þegar því er haldið fram að konur muni eiga erfiðara uppdráttar í persónukjöri en við núverandi kerfi er um leið sagt að stjórnmálaflokkarnir tryggi hag kvenna betur en kjósendur mundu gera í kjörklefanum. Íslensk rannsókn sýnir að fleiri karlar eru í efstu sætum lista að loknum prófkjörum en í þeirri rannsókn kemur einnig fram að fleiri karlar en konur buðu sig fram í efstu sæti lista í þessum prófkjörum.

Í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Niðurstöður okkar gefa til kynna að viðhorf kjósenda hefur óveruleg áhrif á árangur kvenna og að konur séu ekki minna líklegar til að ná sæti sem þær stefna að í prófkjörum flokkanna. Ástæðan fyrir takmörkuðum fjölda kvenna á framboðslistum hlýtur því að vera önnur.“

Engar rannsóknir eru til sem sýna að hlutur kvenna verði minni ef þær byrja á sama stað og karlar.

Mér finnst líka rétt að hafa í huga að aldrei verður hægt að tryggja það algjörlega að kynjahlutföll haldi þó svo að röðuðum listum sé stillt upp eftir kúnstarinnar reglum. Í því listakerfi sem við búum við er fræðilega ekkert því til fyrirstöðu að allir karlar á listum séu strikaðir út. Ég nefni þetta bara til að undirstrika að ekkert er hægt að tryggja í þessum efnum.

Stjórnmálaflokkar eru vissulega nauðsynlegir til að veita skoðunum fólks farveg og eðlilegt er að þeir sem starfa í stjórnmálaflokkum hafi áhrif á hverjir eru í framboði fyrir flokkana. Ljóst er að í því kerfi sem hér er lagt til munu flokkarnir ákveða hverjir verða á framboðslistum þeirra í kosningum og áhrif kjósandans í kjörklefanum eru því bundin við og takmarkast af ákvörðunum sem fyrr hafa verið teknar af stjórnmálaflokkunum.

Frumvarpið sem hér er til umræðu veitir kjósendum mikið vald í kjörklefanum. Kjósandinn getur raðað nöfnum í þá röð sem hann vill að frambjóðendur nái kjöri. Kjósandinn getur þó ekki merkt við nöfn nema á einum lista, ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að kjósa þvert á lista eða flokka. Kosningakerfið er einfalt að því leyti að kjósandinn getur annars vegar notað kross og þannig greitt flokki atkvæði sitt eða sett númer við frambjóðendur í þeirri röð sem hann vill að þeir nái kjöri. Kjósandi sem velur að nota kross lætur öðrum kjósendum eftir að ákveða í hvaða röð menn ná kjöri. Að því leytinu má líkja kosningakerfinu við prófkjör að sá sem notar krossinn eingöngu er eins og kjósandi sem ekki hefur tekið þátt í prófkjöri. Hann lætur öðrum eftir að ákveða mannvalið.

Atkvæði nýtast mjög vel í þessu kerfi því að þegar frambjóðandinn hefur fengið þann atkvæðafjölda sem hann þarf til að ná kjöri flyst atkvæði hans yfir á aðra frambjóðendur sem hann merkti við. Vissulega er nokkuð flókið að útskýra talningaraðferðina en það er líka flókið að útskýra d'Hondt-aðferðina sem sætum er útdeilt eftir í dag. Það sem skiptir máli er að kerfið sé einfalt fyrir kjósandann.

Margar aðrar aðferðir við persónukjör eru til en sú sem hér er til umræðu. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir fór í gegnum það hér áðan þannig að ég tel ekki ástæðu til að eyða tíma okkar í að fara í það, en það verður ábyggilega rætt í hv. allsherjarnefnd að til eru aðrar aðferðir. Ég held að ekki þyrfti marga mánuði til að fara í gegnum það, væntanlega mundu tveir fundir duga til þess.

Ég á von á því að allsherjarnefnd Alþingis ræði frumvarpið rækilega og telji nefndin að eitthvert annað kerfi en það sem lagt er til henti betur á ég von á að nefndin leggi það til. Ég tel þá aðferð sem lögð er til í frumvarpinu góða lausn, hefði reyndar viljað að hægt væri að kjósa þvert á lista eða flokka en átta mig á því að það er kannski of stór biti. Fyrst og síðast tel ég nauðsynlegt að samkomulag náist um eitthvert form persónukjörs. Það dregur vissulega úr flokksræðinu en ég tel engan skaða af því. Við hér í þessum sal þurfum að hafa í huga að persónukjör er fyrir kjósendur en ekki frambjóðendur eða flokka.