138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:23]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ágætisræðu. Mig langar að slá á nokkra af þeim óttastrengjum sem ég heyrði bærast í brjósti hans varðandi það með hvaða hætti flokkur hans ætti að ákveða atriði um persónukjör. Það sem menn tala oft um er hver eigi að ákveða hvað og hvernig. Staðan er einfaldlega sú að í þeim þingflokkum sem við búum við á Íslandi gilda ákveðnar reglur. Það eru reglur sem gilda um prófkjör t.d. og ekkert er því til fyrirstöðu að stjórnmálaflokkar geti komið sér upp slíkum reglum sem muni gilda um með hvaða hætti flokkurinn stendur að persónukjöri, þ.e. vali á þann lista sem á að vera í kjöri, með hvaða hætti kosningabarátta flokksins á að fara fram fram að kosningunum, hvað menn mega t.d. eyða miklum peningum, hverjir eiga að koma fram í fjölmiðlum fyrir hönd flokksins. Við leystum þetta með ágætisaðferð í framboði okkar í vor, þá undir nafni Borgarahreyfingarinnar. Við fólum kosningastjóranum einfaldlega það vald að velja hverjir kæmu fram fyrir hönd flokksins í fjölmiðlum hverju sinni. Við höfðum dagskrá fjölmiðlanna fyrir kosningar og hvaða þættir ættu að vera þar. Kosningastjórinn horfði bara á okkur og valdi eftir skynsemi sinni og ígrundun hver ætti að fara hvert og vissulega voru ekki alltaf allir sammála um það og þá niðurstöðu. En hún skilaði engu að síður ágætisárangri.

Ég heyri þetta hjá mörgum, sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, enda íhaldsmenn inn að beini, að þeir vilja ekki breyta neinu. En nú er bara að vera kjarkaður og taka sénsinn því að þetta er ekkert hættulegt. Þetta er lýðræði og lýðræðið er ekki hættulegt.