138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[21:33]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla kannski ekki að reyna að gefa hina endanlegu skilgreiningu á íhaldsmanni, en þó er það svo í mínum huga að íhaldsmaður er sá eða sú sem heldur fast í þær hefðir sem hafa reynst vel, virðir þekkingu kynslóðanna, þeirra sem eldri eru, en er tilbúinn til að breyta því sem er nauðsynlegt að breyta, er bæði með opinn og frjóan hug gagnvart því. Það er mín skilgreining á íhaldssemi. Íhaldssemi er ekki það að vera á móti öllum breytingum, langt í frá, enda hefur margur íhaldsmaðurinn einmitt verið brautryðjandi og alveg sérstaklega í þeim málum sem snúa að stjórnarskrá og kosningalöggjöf. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það vel úr mannkynssögunni.

Hitt er það síðan að þegar kemur að breytingum á jafnmikilvægum hlutum og stjórnarskrá og kosningalöggjöfinni að þá er skynsamlegt að flýta sér hægt. Það er skynsamlegt að gera slíkt að mjög yfirveguðu máli. Og ég held að á þessu máli, eins og við höfum verið að ræða hér, séu ýmsar hliðar og við skulum bara gefa okkur góðan tíma. Ef þessi ógæfusama ríkisstjórn situr áfram — það væri svo sem ágætt ef kosið yrði fyrr en gert er ráð fyrir, en við skulum gefa okkur að hún sitji út kjörtímabilið, ekki er nein ástæða til annars — höfum við tíma til að vinna málin. Við þurfum ekki að fara í einhverjum loftköstum næstu dagana og vikurnar hér í þinginu á sama tíma og við þurfum að leysa mörg brýn mál sem þarf að klára. Þetta er ekki sagt vegna þess að ég telji að ekki sé brýnt að ræða kosningalöggjöfina, langt í frá. Ég segi bara: Tökum okkur þann tíma sem þarf, nema menn séu alveg orðnir sannfærðir um að kosið verði til þings á næstu mánuðum, þá kannski skal ég taka undir að það geti legið meira á. En meðan vilji stjórnarflokkanna til þess að vinna saman er einbeittur og ekkert lát virðist á held ég að tími sé til þess að vinna þetta (Forseti hringir.) og vinna þetta vel þannig að sómi verði að fyrir Alþingi.