139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sífellt þegar hæstv. utanríkisráðherra kemst í vandræði fer hann að tala um fortíðina. Þá fer hann gjarnan að tala um Framsóknarflokkinn og fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Það er ágætt hjá hæstv. utanríkisráðherra því að það sýnir rökþrot hans. Hann sagðist vera slæmur í lögfræði, enn verri í fiskifræði, ég held að hann sé líklega bara bestur þegar hann sefur á fundum. Nú bið ég Óla lokbrá að heimsækja ráðherrann svo að ég fái frið til að halda þessa ræðu því að eins og allir vita æsist hann yfirleitt mjög upp þegar ég kem í ræðustól.

Nú ætla ég að fara yfir málið. Það er rangt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ákvæðið hafi verið endurnýjað fimm sinnum. Þessir samningar voru fyrst gerðir 1999, síðan 2004 og nú í sumar fór utanríkisráðherra í fararbroddi með að gera samningana í þriðja sinn.

Hæstv. utanríkisráðherra benti mér á að skoða EES-samninginn. Ég þekki EES-samninginn út og inn og það er af einhverri ástæðu sem nú eru lagðar til lagabreytingar að EES-samningum. Við 1. grein EES-samningsins á að bætast 9. töluliður þar sem kveðið er á um þennan samning og svo er það þetta lagafrumvarp í þremur greinum. Þetta hefur ekki verið lögfest áður og bið ég hæstv. utanríkisráðherra að fletta nú upp EES-samningnum og skoða hvaða lagabreytingartillögur hann leggur hér til.

Það eru engin rök fyrir málinu að Norðmenn greiði meira en við. Þetta er eins og að segja: Pabbi þinn er sterkari en pabbi minn. Norðmenn eru efnahagslega sterkir nú um stundir eins og allir vita en við erum efnahagslega mjög veik nú um stundir. Auðvitað er gott að eiga góða granna og Norðmenn hafa reynst okkur Íslendingum frábærir frændur og nágrannar en það er með það eins og annað, að hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin í heild sinni hafa ekki viljað líta svo mjög til Noregs til að fá efnahagslega aðstoð frá Norðmönnum. Samt er hægt að halla sér upp að þeim í EFTA-samstarfinu og í gegnum EES-samninginn og segja að þetta sé frábærlega góður samningur fyrir Íslendinga af því að Norðmenn borga hlutfallslega meira en við. Frú forseti, þetta eru ekki rök. Þetta er eiginlega hálfbarnalegt.

Í fjárlagafrumvarpi til ársins 2011 sem hér liggur fyrir er talað um alþjóðastofnanir og hvað eigi að greiða mikið til þeirra. Til alþjóðastofnana á árinu 2011 eiga að fara rúmir 3 milljarðar. Ég leyfi mér að gera athugasemd við Þróunarsjóðinn, ég ætla ekki að telja upp hvaða alþjóðastofnanir þetta eru. Í frumvarpinu segir að í fjórða lagi sé óskað eftir 164 millj. kr. aukafjárveitingu til Þróunarsjóðs EFTA. Er þar af leiðandi gert ráð fyrir að greiðslur 2011 verði um 1,65 milljarðar, 1.650 millj. kr. miðað við gengisforsendur fjárlaga 2010. Þetta er 30% aukning á greiðslu í Þróunarsjóðinn frá ríkisreikningi 2009. Svo segir hæstv. utanríkisráðherra að verið sé að draga úr greiðslunum. Frú forseti. Það er ekki hægt að segja svona lagað hér og vita ekki betur. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki haldið þessu fram hér áðan með réttri vitund, ég vil ekki ætla honum það að hann sé að segja þjóðinni ósatt eða í það minnsta hálfsannleika.

Eins og kom fram áðan er Þróunarsjóðurinn notaður til fjármögnunar á umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Finnst einhverjum það ósanngjörn krafa að við leitum eftir undanþágu frá þessu ákvæði í þetta sinn? Þessar greiðslur voru líka í fyrra og gerði ég athugasemd við það og spurði nákvæmlega sömu spurningar: Eigum við ekki að gá hvort hægt sé að fá undanþágu frá þeim vegna fjárhagslegrar stöðu okkar sem ríkis? Nei, landsbyggðinni skal fórnað, það skal skera niður úti á landsbyggðinni. Það skal fjölga starfsfólki í ráðuneytunum til að geta sinnt þessari svokölluðu ESB-umsókn. Kannski hangir þetta allt á því. Hæstv. utanríkisráðherra vill ekki fæla stóru herrana í Brussel og gengst m.a. undir að binda þetta í lög næstu fimm ár, 6 milljarða í gjaldeyri. Þetta er galið, frú forseti. Það er óásættanlegt að utanríkisráðherra skuli frekar vinna með erlendum þjóðum en huga að heimalandi sínu.

Það kemur fram í frumvarpinu að nú í sumar hafi verið gengið frá samningi um nýtt úthlutunartímabil frá árinu 2010 til 2014. Hæstv. utanríkisráðherra virðist hafa farið glaður í bragði með pennann á loft og skuldbundið íslensku þjóðina.

Ég má til með að grípa hér ofan í fylgiskjal II sem kemur frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að fullgilda samning um svonefnt EES-fjármagnskerfi fyrir árin 2009–2014 en skrifað var undir nýtt samkomulag við Evrópusambandið um framlög í þennan Þróunarsjóð EFTA í desember 2009. […] Ísland hefur þó ávallt lagt á það ríka áherslu að engin lagaleg skuldbinding standi til greiðslna af þessum toga.“

Hæstv. utanríkisráðherra fór af stað í sumar með nýjan skilning og nýja túlkun ríkisstjórnarinnar á því hvað sé lagaleg skuldbinding og hvað ekki. Með einu pennastriki hefur hæstv. utanríkisráðherra tekið á sig lagabyrði fyrir íslensku þjóðina og skuldbundið greiðslurnar næstu fimm ár. Þetta gerir hann og kemur nú með frumvarp inn í þingið sem greinilega er ætlast til að þingmenn samþykki. Ég skora á hæstv. utanríkismálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að athuga hvort ekki sé hægt að bakka út úr þessu samkomulagi því að við þurfum svo á því að halda að spara þann gjaldeyri sem við höfum.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að þetta væri samtvinnað samningi um sölu á sjávarafurðum. Gott og vel, við höfum ferskasta og flottasta fisk í heimi — út af því er nú þessi ásókn í landið og miðin hjá okkur — en veltan sem undir liggur eru 3 milljarðar á ársgrundvelli sem íslenskir aðilar selja í fiski inn í Evrópusambandið. Frú forseti. Helmingurinn af ágóðanum fer beint inn í þennan sjóð þannig að eftir stendur 1,5 milljarðar sem íslenska þjóðin hefur út úr þessum samningi. Íslensk stjórnvöld mega ekki vera svo hrædd við erlent vald að þau lyppist niður.

Ég gríp hér aftur niður í fylgiskjal II frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest er áætlað að það hafi í för með sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð sem að hámarki geta orðið 34 milljónir evra yfir tímabilið […].“

Þarna kemur í ljós að þetta er bundið í erlendum gjaldeyri sem við eigum ekki til, eins og ég sagði áðan. Ég ætla ekki hæstv. utanríkisráðherra að hafa ekki kynnt sér málið en einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að þetta mál eigi að fara í gegn án mikillar umræðu. Í 5. gr. bókunar 38b sem finna má á bls. 6 í frumvarpinu má sjá hvaða lönd það eru sem fá úr Þróunarsjóðnum og ég fór yfir áðan. Ég ætla að lesa það aftur til að koma því inn í ræðu, með leyfi forseta:

„Fjárveitingar skulu renna til eftirfarandi ríkja sem njóta styrks: Búlgaríu, Tékklands, Eistlands, Grikklands, Spánar, Kýpur, Lettlands, Litháen, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Portúgals, Rúmeníu, Slóveníu og Slóvakíu.

Spánn fær úthlutað 45,85 milljónum evra vegna tímabundins stuðnings á tímabilinu 1. maí 2009 til 31. desember 2013.“

Virðulegi forseti. Á hvaða leið erum við? Af hverju eiga Íslendingar að borga fyrir fjárhagsvandræði þjóðanna í Evrópusambandinu? Í fyrsta lagi erum við í samkeppni við þær og í öðru lagi vill hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin vera í samkomulagi við þetta fólk og ganga í Evrópusambandið. Bíðið við, hví er verið að leggja það á smáþjóð að koma þessum þjóðum á fæturna á ný fjárhagslega þegar ekki sér fyrir endann á vandræðaganginum heima fyrir? Ekki sér fyrir endann á vandræðagangi ríkisstjórnarinnar sem virðist ekki ætla að gera neitt í því að endurreisa heimili hér eða koma atvinnulífinu af stað. Maður á hreinlega ekki til orð yfir hvað er um að vera hér.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka þessu nú. Ég skora á utanríkismálanefnd að fara ofan í samninginn, þetta frumvarp, og átta sig á því hversu miklir hagsmunir eru hér í húfi fyrir íslenskt þjóðarbú. Við erum ekki að tala um eingreiðslu heldur skuldbindandi samning til fimm ára. Þetta er hneyksli, frú forseti. Ég skora á utanríkisráðherra að semja við Liechtenstein og Noreg um undanþágu frá þessum greiðslum því að forsendan fyrir því að íslenskt samfélag rísi á ný er að við notum fjármagn okkar og forgangsröðum því heima fyrir. Þá fyrst getum við tekið þátt því að styrkja aðrar þjóðir sem standa illa fjárhagslega.