139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

81. mál
[16:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórn Íslands að fullgilda fyrir hönd Íslands fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu sem voru undirritaðir í Genf 25. nóvember 2008. Samhliða var leitað heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu sem var undirritaður á þeim sama degi.

Eins og hv. þingmenn muna var þessi tillaga lögð fram á 138. löggjafarþingi en hún hlaut þá ekki afgreiðslu. Hún er núna lögð fram aftur með smávægilegum breytingum sem lúta að því að tilgreindar eru nokkrar óunnar landbúnaðarvörur sem Ísland fellir niður tolla á, samkvæmt landbúnaðarsamningi Íslands og Kólumbíu. Þessi samningur við Kólumbíu er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja, að markaði í Kólumbíu. Eins og menn hugsanlega vita er Kólumbía eitt af þeim ríkjum sem hafa náð sér verulega á legg í Suður-Ameríku og hefur verið spáð töluverðum framgangi á efnahagssviðinu nú þegar horfur allar í landinu eru miklu friðvænlegri en þær voru áður. Þarna er á framtíðina að sækja og samningurinn mun draga úr eða í sumum tilvikum afnema með öllu viðskiptahindranir. Sannarlega mun hann bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja í EFTA-ríkjunum í Kólumbíu.

EFTA-ríkin hafa núna gert 22 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa ef þessi samningur er meðtalinn. Í tengslum við þessa samninga hafa yfirleitt verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á millum einstakra EFTA-ríkja og viðkomandi ríkis eða ríkjahóps um verslun með óunnar landbúnaðarvörur. Á undanförnum fjórum árum hafa árleg verðmæti á útflutningi til Kólumbíu sveiflast töluvert, eru á bilinu 16–40 millj. kr., og eru það næstum eingöngu sjávarafurðir sem þangað eru fluttar.

Innflutningur frá Kólumbíu hefur líka verið sveiflukenndur á þessu tímabili, hlaupið frá 55 og upp í 300 millj. kr. Kaffi — Kólumbía er fræg fyrir kaffi — grænmeti og ávextir eru mikilvægustu vörurnar. Fríverslunarsamningurinn sjálfur kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á helstu sjávarafurðum og iðnaðarvörum frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu aðlögunartímabili sem er fimm til tíu ár eftir því hvaða varningur á í hlut. Núna eru tollar við innflutning á sjávarafurðum til Kólumbíu allt að 20% þannig að segja má að með niðurfellingu þessara tolla skapi samningurinn forsendur fyrir aukin viðskipti með sjávarafurðir.

Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur þess vegna, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi, samkeppnismál, fjárfestingar, opinber innkaup og sömuleiðis ákvæði um hvernig leysa beri ágreiningsmál sem stofnast. Landbúnaðarsamningurinn á milli Íslands og Kólumbíu er viðbótarsamningur og hann er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Kólumbíu.

Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og hann kveður á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Kólumbía mun m.a. fella niður tolla á vatn og lifandi hross frá gildistöku samningsins en tollar á íslenskt lambakjöt falla að fullu niður að loknum tíu ára aðlögunartíma. Ísland mun líka fella niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna, eins og t.d. ákveðnar tegundir matjurta, jólatré, og líka á ávaxtasafa. Þarna er um að ræða svipaðar tollaívilnanir og í samningum Íslands við Evrópusambandið.

Eins og þeir þingmenn muna sem fjölluðu um málið í fyrra í utanríkismálanefnd risu nokkrar viðbárur við samningnum. Ástæðan var sú að verkalýðsfélög á alþjóðavísu höfðu gert athugasemdir við háttsemi kólumbískra stjórnvalda gagnvart verkalýðsfélögum í Kólumbíu. Sömuleiðis var deilt á kólumbísk stjórnvöld fyrir að stuðla ekki nægilega að rétti manna til að stofna verkalýðsfélög. Þá er frá því að greina að frá því að ég lagði þennan samning síðast fyrir hefur Kólumbía verið tekin af ákveðnum athugunarlista hjá Alþjóðavinnumálasambandinu og hlutir horfa þar til töluvert betri vegar. Þetta hefur m.a. leitt til þess að andstaða við samninginn í öðrum EFTA-ríkjum, þar á meðal Noregi, er ekki sú hin sama og fyrr. Þetta eru þættir sem hv. utanríkismálanefnd getur grandskoðað við umfjöllun málsins þegar það kemur til hennar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði málinu vísað til hv. utanríkismálanefndar.