139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er ég að draga úr nauðsyn þess að fara í grunnrannsóknir á auðlindum okkar. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé rétti tíminn til að gera það, ekki síður í ljósi þess eins og hv. þingmaður benti á að þarna er ekki um möguleika á olíu að ræða heldur gasi. En þróunin í gasmálum heimsins hefur verið þannig að með nýrri tækni til að vinna svokallað „sheil-gas“ hefur dregið verulega úr áhuga alþjóðlegra fyrirtækja til að fara í gasvinnslu á norðursvæðum. Þetta hefur komið fram á síðustu 12 mánuðum, en m.a. Háskóli Íslands og fræðimenn sem hafa verið að fylgjast með norðurslóðasvæðum hafa bent á þetta þannig að það dregur kannski úr nauðinni á því að fara að þróa gassvæði þegar við eigum hugsanlega kost á töluvert mikilli olíu á Drekasvæðinu. Vísa ég þá aftur til þess sem norskir sérfræðingar hafa sagt, að þar kunni að vera annað mesta ónumda olíusvæðið. Byggja þeir það á mælingum sem benda til að þar sé, samkvæmt jarðeðlisfræðilegum mælingum, að finna allverulegt magn af olíu.

Ef ég ætti að velja um þetta tvennt, í hvort svæðið ég vildi setja peninga núna, hvort ég vildi halda áfram með Drekasvæðið eða byrja á grunnrannsóknum á Gammsvæðinu, mundi ég velja Drekasvæðið. Ef ég byggi í bestu veröld veralda, minnar og hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, mundi ég auðvitað setja peninga í hvort tveggja. En ég þarf því miður að horfa inn í myrkan raunveruleikann eins og hann er. Hv. þingmaður lýsti honum nokkuð vel. Þá er ég ekki að tala um samstarfsflokkinn, heldur efnahagsástandið.