140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á og starta þessu máli hér. Ég vil þó segja að það er furðulegt að hlusta á þessa umræðu um lítil sveitarfélög og sameiningu þeirra þegar vandinn er á höfuðborgarsvæðinu. Vandinn var búinn til hér. Það væri nær að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til að koma í veg fyrir að svona rugl endurtaki sig eins og var hér í gangi. Hér er stóri vandinn, hann er ekki hjá litlu sveitarfélögunum sem eru búin að hagræða og hagræða og hagræða og skera inn að beini. Vandinn er hér.

Það er hins vegar óásættanlegt að núna á að fara sömu leið með sveitarfélögin og verið er að gera með heimilin í landinu. Það á að láta þau sem standa kannski næstverst fjárhagslega borga fyrir skussana, þau eiga að borga fyrir skussana. Svo er verið að rétta einu ríkasta sveitarfélagi landsins um 300 milljónir fyrir að taka við einum skussanum. Þetta er mjög furðuleg ráðstöfun verð ég að segja vegna þess að þetta kemur niður á þeim sem síst skyldi, líkt og ráðstafanir sem hafa verið gerðar varðandi skuldamál heimilanna hjá þessari vesalings ríkisstjórn. Þetta er því miður staðreyndin. Þetta er staðreyndin. Nú eiga sveitarfélög sem fengu ekki stuðning í þenslunni og hafa ekki fengið stuðning í kreppunni, að borga. Nú eiga þau að borga brúsann.

Við sjáum að alls staðar er opinberum störfum á landsbyggðinni að fækka. Verið er að skera niður. Menn eru í stanslausri varnarbaráttu. Og þá kemur þetta ofan á allt annað. Það á að skerða tekjurnar með þessum hætti.

Ályktanir eftir ályktanir berast frá Samtökum sveitarfélaga og sveitarfélögum um hvaða áhrif þetta mun hafa á rekstur þeirra. Það er algjörlega óásættanlegt að vera sífellt í þeirri stöðu að vandamálin eru búin til á höfuðborgarsvæðinu, þau eru búin til af sveitarfélögunum hér kring en litlu sveitarfélögin eiga að leysa þau. Kannski er það vegna þess að þau eru vön að leysa sín vandamál. Þau eru vön að spjara sig. Þess vegna er þetta gert. Þetta er algjörlega óþolandi.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að þetta nái ekki fram að ganga með þessum hætti, því að þetta er ósanngjarnt og þetta er rangt.