140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. 110%-leiðin er ekki hafin yfir gagnrýni. Hér leggjum við til að miða við fasteignamat eða markaðsvirði viðkomandi eignar, þ.e. það sem er lægra. Í 110%-leiðinni er líka tekið tillit til ráðstöfunartekna húsnæðiseigenda þannig að það hefur verið gengið út frá því að ef ráðstöfunartekjurnar standa ekki undir 110% skuldsetningu yrði skuldsetningin færð enn neðar, allt niður í 80%.

Virtur hagfræðingur kom í heimsókn um daginn og sagði að það væri rétt að fara þá leið að láta einfaldlega bankana eiga hluta af viðkomandi eign, stilla skuldina síðan við 70% og þá væru eftirstandandi 30% einfaldlega í eign viðkomandi fjármálastofnunar. Mér finnst það ágæt leið. Ég vildi gjarnan sjá fjármálafyrirtækin í landinu þróa með sér einhverja slíka leið og þá væri þessi 30% eignarhlutur einfaldlega keyptur til baka að einhverjum tíma liðnum. Það er ekkert í þessum tillögum sem kemur í veg fyrir að slíkar leiðir verði skoðaðar (Forseti hringir.) eða farnar, en ég tek undir að það á ekki að skilja fólk eftir með meiri skuldir en það ræður við.