140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir stjórnarsamstarfið frá 2007 (LMós: Góður.) og minna hann aðeins á að hann studdi þá ríkisstjórn og það ráðuneyti sem hann gerði hér að sérstöku umtalsefni.

Það er tvennt sem alþjóðaumhverfið hefur sérstaklega tilnefnt til vitnis um að vel hafi tekist til á Íslandi við að fást við hrunið. Annað var það að gera ekki skuldir einkabanka að skuldum almennings. Hitt var það að það hefur verið talsvert í umræðunni hversu vel krónan hefur dugað til að taka á vandanum. Hér hefur verið unnið eftir áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem annars vegar laut að því hvernig við ætluðum að skera niður og hvar eða hversu mikið þyrfti að skera niður, hins vegar því hvernig við ætluðum að skapa vöxt. Niðurskurðarhlutinn hefur gengið nokkurn veginn eftir og við höfum ekki staðið hér og gagnrýnt það hversu mikið hefur verið skorið niður. Það er á vaxtahliðinni sem ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist og það er vegna (Forseti hringir.) þessara þátta sem ég hef hér rætt um, vegna óvissunnar um sjávarútveg, að það er engin virk orkustefna í landinu og að skattarnir hafa komið í veg fyrir nýja fjárfestingu.