140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þingflokki sjálfstæðismanna fyrir að hafa lagt fram tillögu um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Aldrei eru of margar góðar tillögur lagðar fram á þinginu og er mjög jákvætt þegar þingmenn stjórnarflokkanna taka vel í þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa, og öfugt að sjálfsögðu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, hvort sem er í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokki, hafa nokkrum sinnum lagt fram tillögur sem miða að því að örva efnahagslífið, koma því á fætur aftur, efla atvinnu, fjölga störfum og finna lausn á fjármálum heimilanna.

Fyrir skömmu kynntu þingmenn Framsóknarflokksins það sem við köllum plan B sem var á svipuðum nótum og þessar tillögur, þ.e. að reyna að koma hjólunum af stað aftur. Það er það sem við söknum frá þeirri ríkisstjórn sem nú situr, það vantar drifkraftinn í að skapa atvinnu og fjölga störfum. Þetta er allt samhangandi mynd eða samhangandi ferill sem þarf að vera til staðar, þ.e. umbætur í efnahagslífinu, sterkt fjármálakerfi, öflugt atvinnulíf og þá um leið er hægt að sinna félagslega kerfinu. Og ekki síst munu heimilin ná að reka sig með þeim hætti sem þau eiga skilið og þurfa að reka sig.

Stundum hefur verið rætt hér, og eflaust má færa rök fyrir því, að verr hefði getað farið á Íslandi. Það eru nokkur atriði sem gera það að verkum að ekki fór verr en reyndin varð. Ég nefni til að mynda þau neyðarlög sem voru sett á Alþingi haustið 2008. Það hefur komið í ljós að það var rétt hjá okkur að gera það. Framsóknarflokkurinn studdi það á sínum tíma að þau yrðu sett en það gerðu Vinstri grænir hins vegar ekki. Nú hefur það verið staðfest af einhverjum, af þeim hagfræðingum sem tóku þátt í heimsleikum hagfræðinga í Hörpunni, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kallaði það áðan. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður greip fram í og sagði að Vinstri græn vilji hirða hólið og er það sjálfsagt alveg rétt.

Annað sem við megum ekki gleyma þegar við ræðum stöðu Íslands er það að sá grunnur sem var til staðar haustið 2008 var býsna sterkur. Það voru til öflugir innviðir sem höfðu verið byggðir upp sem lúta að samfélagsgerðinni og samfélagsþjónustunni svo að dæmi sé tekið.

Þær tillögur sem hér liggja frammi eru býsna viðamiklar og ágætlega rökstuddar. Það er eitt og eitt sem mig langar að velta upp, sumu er ég mjög hlynntur og um annað hef ég ákveðnar efasemdir. Hér kemur fram að draga eigi allar skattahækkanir til baka. Það kann að hafa farið fram hjá mér, ég átta mig ekki alveg á því hvenær á að gera það. Ég er sammála því að skattar eigi að vera eins lágir og mögulegt er á Íslandi. Ég átta mig ekki alveg á því hversu bratt er hægt að fara í slíka leiðréttingu. (Gripið fram í: 2–3 ár.) 2–3 ár er sagt hér, við skulum sjá hvort það er hægt. Síðan kemur fram að ljúka eigi við endurskipulagningu á fjármálum heimilanna og talað er um þessa 110% leið. Talað er um að lagfæra hana. Ég held hins vegar að þessi 110% leið sé vonlaus, hún sé bara ekki nógu góð. Það kann að vera að betra sé að laga hana en hafa hana eins og hún er. En hún virkar hins vegar ekki að mínu viti því að það er svo margt að henni. Þeir sem fara þessa 110% leið — ég ætla að leyfa mér að orða það þannig, sérstaklega t.d. úti á landi þar sem fasteignaverð er ólíkt því sem er hér í Reykjavík og tekur kannski minni sveiflum — er hugsanlega verið að dæma fólk til að búa um aldur og ævi í þessum íbúðum?

Ég er hins vegar nokkuð hrifinn af þeim hugmyndum sem hér koma fram um að einstaklingar eða fjölskyldur geti skilað inn íbúðunum ef sýnt er að þær ráði ekki við að standa undir þeim kostnaði eða því húsnæði sem þær fara í. Þetta tengist svokölluðu lyklafrumvarpi sem oft hefur verið nefnt eða er á svipuðum nótum.

Mér finnst of lítið gert úr því að tala um afnám verðtryggingar í þessum tillögum. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um það hvernig á að gera það og hvort eigi að gera það eða ekki, það er bara ósköp eðlilegt. Ég held hins vegar að það sé eitthvað sem við eigum að stefna að eins og við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur um að sé gert í ákveðnum skrefum. Á móti kemur að lagt er til að efld verði úrræði er lúta að óverðtryggðum lánum og því ber að fagna og það er mjög gott.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi það að vitanlega er áhyggjuefni þegar ríkissjóður eyðir meiru en hann aflar. Það verður vitanlega þannig meðan stjórnvöld sýna ekki þann metnað sem þarf til að skapa atvinnu, til að skapa umhverfi fyrir fyrirtæki og einstaklinga, heimilin til að þau geti unnið og þar af leiðandi borgað skatta og skyldur til ríkissjóðs og búið þannig til tekjur fyrir ríkið. Ástæðan er meðal annars sú sem hér er réttilega rakin að ríkissjóður er of umfangsmikill, ríkissjóður er mjög stór og umsvifamikill á Íslandi og óx mjög hratt þegar Samfylkingin kom inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma og væntanlega vegna kröfu Samfylkingarinnar. Við erum hins vegar að súpa seyðið af því í dag.

Rætt er um fjárfestingar og hvatt til þeirra og atvinnusköpunar. Ég tek undir að það þarf að efla nýsköpunarfyrirtækin, það höfum við lagt áherslu á líka. Síðan er vikið að orkuframleiðslu. Þar erum við að sjálfsögðu að tala um eitt helsta tækifæri Íslands og Íslendinga til að afla sér tekna og til að koma fram á við, það er að nýta þær auðlindir sem við eigum. Það er að sjálfsögðu orkan, það er sjávarútvegurinn og það er náttúrlega náttúran, þá er ég að meina í þeirri mynd að ferðamenn vilja gjarnan koma hingað og skoða íslenska náttúru. Og ég veit að sjálfstæðismenn eru sammála mér um að það gengur ekki að við viljum ekki virkja hvar sem er. Það er mjög mikilvægt að við gerum það í sátt við náttúruna þannig að allt þetta geti haldist í hendur.

Það var hlegið að framsóknarmönnum um árið þegar við sögðumst ætla að fjölga störfum um 12.000. Það gekk hins vegar eftir og það sýnir okkur að ef vilji er fyrir hendi er hægt að setja slík markmið. Það er hins vegar vont ef það helst í hendur eins og manni virðist, ég ætla að orða það þannig, vera í dag. Á hátíðarstundum tala ráðherrar á Alþingi um að störfum hafi fjölgað svo og svo mikið, 2 þúsund, 5 þúsund eða hvað það er, en að sama skapi er fólksflótti úr landinu og atvinnuleysi mjög mikið — hvar verða þessi störf til? Verða þau til í eftirlitsgeiranum, hjá hinu opinbera eða hvar? Mjög líklega ekki í einkageiranum. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessu.

Síðan er talað um sjávarútveginn og það eru mikil vonbrigði að hlusta á þingmenn tala um sjávarútveginn eins og hann sé einhvers konar vandræðagrein. Það er bara ósatt. Sjávarútvegurinn er hátæknigrein sem er undirstaða samfélags okkar í dag og ég er sammála því sem hér kemur fram að nota eigi tækifærið og veiða meira vegna þess að það er eitt af því sem við þurfum á að halda til að spýta okkur af stað.

Aðeins aftur um heimilin. Ég ætla að ræða aðeins sjávarútveginn en hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir talaði um 90 ára afnotasamninga sem hún nefndi í andsvari. Það er svo fáránlegt að halda svona umræðu og reyna að telja fólki trú um að einhver sé að tala um eitthvað slíkt.

Það er grundvallaratriði þegar við ræðum framtíð Íslands, og hvernig við ætlum að komast út úr vandanum, hvernig við ætlum að taka á málum heimilanna. Í sjónvarpsþættinum Ísland í dag á Stöð 2 ekki alls fyrir skömmu kom fram að fasteignabólan er líklega ekki sprungin enn. Ef það er rétt að fasteignabólan sé ekki sprungin og bankarnir haldi fasteignaverðinu uppi þurfum við virkilega að hafa áhyggjur. Þá mun það bætast ofan á allt annað sem fyrir er. En ég vonast að sjálfsögðu til þess að sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar fari ofan í þessar tillögur eins og þörf er á.