141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir orð hennar en hún hefur einmitt stutt málið og önnur mál í þessa veru. Ég get nefnt löggæsluáætlun sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti og var samþykkt á síðasta þingi. Nefnd sem á að vinna það mál er einmitt að fara af stað bráðlega í að vinna löggæsluáætlun fyrir Ísland sem er alveg gríðarlega mikilvægt starf og verður mikilvægt fyrir lögregluna til framtíðar.

Varðandi eftirlitið er það einmitt verkefni innanríkisráðuneytisins að fara faglega yfir það þegar búið verður að samþykkja þessa tillögu og leggja það fyrir þingið hvernig eftirlitinu verður háttað. Reyndar er það mín skoðun að ekki sé nóg að setja upp eftirlitsnefnd á vegum Alþingis til að fylgjast með beitingu þessara heimilda. Ég hefði talið æskilegra að sérstakri deild yrði komið á innan dómstóls til að fylgjast með beitingu þessara heimilda. Dómstólarnir eru mjög nátengdir þessum málum og veita heimildir fyrir beitingu rannsókna af þessu tagi og koma auðvitað nálægt mjög mörgum öðrum málum sem snúa að lögreglunni og því að stemma stigu við glæpum á landinu. Ég hefði því talið æskilegt að sérstök deild væri innan dómstóls sem hefði þetta eftirlit með höndum og svo hugsanlega að viðbættri eftirlitsnefnd á vegum Alþingis. Ég tel að annaðhvort þurfi hvort tveggja eða einungis deild innan dómstóls, en ekki einungis eftirlitsnefnd á vegum Alþingis, ég held að það yrði of veikt. Það er mitt mat. Líklega væri best að hafa tvenns konar eftirlit eða hafa það í höndum sérstakrar deildar innan dómstóls.

Þessu hefur verið komið fyrir á Norðurlöndunum, það er alveg þekkt hvernig á að vera með eftirlit á svona heimildum. Það er alveg þekkt og fúnkerar ágætlega annars staðar á Norðurlöndunum. Ég hef alla vega ekki heyrt um einhver sérstök slys sem hafa orðið í því sambandi. En það er alveg ljóst að þessar heimildir hafa leitt til (Forseti hringir.) þess að búið er að stöðva glæpi. Það er gríðarlega góður árangur.