141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að vera með eftirlit með eftirlitinu og koma í veg fyrir að það sé misnotað, en mér finnst það samt vera svolítið bratt af hv. þingmanni að halda því fram að forvirkar rannsóknarheimildir skili ekki neinu. Í það minnsta hefur sem betur fer verið hægt að koma í veg fyrir hryðjuverk í þeim löndum sem við berum okkur saman við. (BirgJ: … koma í veg fyrir Breivik.) — Nákvæmlega, hv. þingmaður segir að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir Breivik. Það ætti að verða okkur víti til varnaðar. (BirgJ: Nei, þeir … en gátu það samt ekki.) Ef við skoðum reynslu Norðmanna, sem við verðum og ættum að gera, sjáum við að Noregur er ekki langt frá okkur í menningu og háttum, og þá sjáum við að hér er raunveruleg hætta og við getum ekki afgreitt hana sem ekkert mál.

Mér finnst einhvern veginn að það ætti að vera þannig, virðulegi forseti, en auðvitað ber ég virðingu fyrir skoðunum annarra og það getur vel verið að við náum engan veginn saman í þessum málum. Mér fyndist það ætti vera verkefni okkar og útgangspunktur að reyna að finna leiðir til að hámarka öryggið og þá ekki bara öryggi sem snýr að því að hér sé ekki hægt að myrða fólk heldur líka öryggi og frelsi manna sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af og er raunverulegt vandamál líka. Ég mundi ætla að það væri mikilvægt að við værum hér með skilvirkt eftirlit með eftirlitinu svo að við gætum fylgst með þeim sem ætla að misnota það, sem er svo sannarlega hætta á, til að þeir kæmust ekki upp með það. (Forseti hringir.) Við getum ekki horft fram hjá öryggisþættinum, virðulegi forseti.