141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[19:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að kynna skoðanir sínar og viðhorf til þessara hluta þótt í litlu sé. Þetta er að sjálfsögðu eitt af því sem þarf að meta við þá endurskoðun sem hér er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni. Ég ætla ekki að ræða það frekar, við þyrftum lengri tíma til þess en nú er beinlínis til ráðstöfunar á fundinum. Klukkan er um 19 og við hv. þm. Jón Bjarnason erum vanir því að hlusta á fréttir á þessum tíma og fara í kvöldmat, helst heim til okkar.

Mig langar þó að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann var sjávarútvegsráðherra á fyrri hluta þess kjörtímabils sem við erum að klára hvað úr hverju og starfaði undir merkum þeirrar stefnuyfirlýsingar sem tiltekin er í greinargerðinni þar sem vissulega sagði að Íslendingar áskildu sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, sem ég er algerlega sammála, en þar stóð líka að nauðsynlegt væri að endurmeta hvernig Íslendingar hygðust nýta sér þennan rétt. Þar stóð beinlínis, með leyfi forseta:

„Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.“

Þá er spurningin: Tók hv. þingmaður í tíð sinni sem ráðherra ekki þátt í samningu þessarar stefnuyfirlýsingar? Var hann í raun og veru á móti þessu tiltekna ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar eða skorti hann tíma eða þrek til að fylgja fram því verkefni sem hér er tiltekið í stefnuyfirlýsingunni?