142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

ályktun Evrópuráðsins og landsdómur.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan setjast yfir það með þingmönnum úr öðrum flokkum að finna fyrirkomulag ráðherraábyrgðar sem við getum öll verið sátt við til framtíðar. En það hefur verið stefna jafnaðarmanna lengi að það eigi að vera eitt réttarkerfi í þessu landi fyrir alla, alveg eins og það á eitt að gilda um starfskjör alþingismanna og annarra í samfélaginu. Þess vegna höfum við ítrekað það, og hv. fyrrverandi þingmaður og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram frumvörp og tillögur um það árum saman að landsdómur yrði lagður af.

Vandinn var að þær tillögur voru aldrei teknar til efnislegrar afgreiðslu vegna þess að það er svo flókið og snúið að breyta stjórnarskránni. Það var aldrei hægt að finna farveg fyrir breytinguna eða að mönnum fannst önnur mál brýnni. Þess vegna ítreka ég að tækifærið er núna. Það er tækifæri fyrir okkur að grípa núna þann möguleika að hægt sé að breyta stjórnarskránni með fulltingi þjóðarinnar á þessu kjörtímabili og að við getum gert það strax og ýtum því ekki á undan okkur. Ég held að það skipti miklu máli.