142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

aflandsreikningar og skatteftirlit.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til þess að íhuga það að halda áfram að efla skatteftirlitið og leggja meiri fjármuni í það á næsta ári því að það er alveg augljóst að við megum þar enn taka betur á. Það er alveg klárt að hver króna sem varið er í það skilar sér margfalt til baka og hér hafa ágætisstjórnarliðar vakið athygli á þeim málstað á þessu sumarþingi.

Ég hvet líka hæstv. ráðherra til þess að kanna það hvort við Íslendingar getum fengið aðgang að þessum gríðarlega miklu upplýsingum vegna þess að þetta eru náttúrlega meiri upplýsingar en heimurinn hefur nokkurn tímann séð um þessar svikamyllur sem settar hafa verið upp á aflandseyjum, bæði í reikningum og félögum, til að svíkja undan skatti. Það er rétt hjá ráðherranum, auðvitað erum við að tala um þá sem gera það í þeim tilgangi sem svo allt of oft er. Ég hvet ráðherrann til að gera ráðstafanir til þess að skattyfirvöld fái (Forseti hringir.) þessar upplýsingar til þess að geta kannað og gengið úr skugga um hvort þeir íslensku aðilar sem þarna kunna að vera blandaðir (Forseti hringir.) inn í hafi talið þetta fé fram hér heima.