142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[20:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Sem mikill talsmaður lýðræðislegrar tilraunar þætti mér ekkert úr vegi að kanna þá leið og mundi gjarnan vilja sjá hana útfærða áður en ég gef eindregið svar. Ég hef oft brennt mig á því að vera aðeins of fljótfær, samanber tillögu Péturs H. Blöndals um 50% þröskuld sem ég hélt að snerist um eitthvað allt annað en að 50% þyrftu að segja já, en ég áttaði mig á villu míns vegar þegar það var útskýrt fyrir mér.

Mér finnst líka gríðarlega mikilvægt í þessu máli að við gerum okkur grein fyrir því að við búum í samfélagi sem er að breytast þar sem fólk vill hafa meiri aðkomu að málum. Eitt það besta sem kom út úr þessu hruni var rík meðvitund og þær leiðir sem almenningur fann sér til að hafa áhrif. Ég vona að við hverfum ekki af þeirri leið. Nú erum við með sama forseta lýðveldis þannig að mér þykir þetta líka vera ákveðinn prófsteinn á einlægni hans varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Það á ekki að skipta máli frá hvaða ríkisstjórn lögin eru sem er synjað eða eru samþykkt ef það er ríkur þjóðarvilji um að fá að hafa aðkomu að málinu. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa það í huga en er tilbúin til að skoða fleiri leiðir, svo sannarlega. Þessi leið hefur væntanlega ekki verið farin áður þannig að ég væri jafnframt tilbúin til að leggja blessun mína yfir tilraun til að fá Alþingi til að fara þá leið.