142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

veiðigjald.

15. mál
[23:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði út af hinum frægu orðum Margrétar Thatcher sem sumir hafa sagt að næði því að greypa í eina setningu kjarna frjálshyggjunnar. Það mætti kannski segja miðað við þær áherslur sem hafa birst í umræðunni og þessu frumvarpi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að í hennar útgáfu væri ekkert samfélag, bara útgerðarmenn. Þannig eru áherslurnar sem birtast hér.

Mér fannst hv. þingmaður tala af skyggnu mannviti um sjávarútveg og veiðigjöld og greinilegt að hún fiðrast vel í þeim málaflokki. Ég var henni algjörlega sammála nema þegar hún kom að afleiðingum frumvarpsins. Hv. þingmaður sagði að það væri alveg ljóst að í haust mundum við standa frammi fyrir því að ríkisstjórnin þyrfti að reyna að bæta upp það tekjufall sem hún er að skapa hér í kvöld og þessa daga og enginn vissi hvað yrði. Það er rangt.

Frú forseti. Námsmenn vita það. Það kom skýrt fram í dag að hæstv. ráðherrarnir eru þegar byrjaðir að kroppa af þeim sem aumastir standa og minnst skjólið hafa. Það var reifað mjög ítarlega í jómfrúarræðu hv. þm. Freyju Haraldsdóttur í dag.

Það kom fram í fréttum í kvöld að formenn stjórnarflokkanna fara nú fram á það við stjórnarandstöðuna að hún fallist á að samkomudegi þings verði frestað í haust. Af hverju? Vegna þess að þeir hafa sjálfir búið sér til þá stöðu á þessum dögum að alveg ljóst er að með því að tapa töluvert miklum tekjum úr ríkissjóði með þeim frumvörpum sem þeir hafa lagt fram komast þeir ekki til þess í tíma að búa til fjárlagafrumvarp. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, sem er formaður stjórnmálaflokks, telur hún að það eigi að verðlauna þá fyrir þetta með því að verða við því?