144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

ummæli ráðherra í umræðum.

[14:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Af því að ég tengist þessu máli örlítið vil ég ganga undir höggið og verja hæstv. sjávarútvegsráðherra sem að minnsta kosti gaf undir lokin svar sem var stefnumótandi. Hann sagði skýrt að hann væri hættur við að leggja niður umhverfisráðuneytið þannig að ég get að minnsta kosti hallað mér glaður á koddann í kvöld.

Hitt er annað mál að það er til vansa fyrir þingið þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hérna dag eftir dag í fúlu og úfnu skapi og svarar þingmönnum skætingi. Ég tel að það sé mjög óviðeigandi þegar hæstv. forsætisráðherra talar með þeim hætti um orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur eins og þetta sé eitthvert hundgamalt mál.

Um hvað snýst málið? Það snýst um vonda stjórnsýslu hans, að hann veitir lán úr ríkissjóði með sms-um sem meira að segja er ekki beðið um. Er nema von að hv. þingmenn vilji ræða það? Svo kvartar hann undan því. Ég skil það vel, og ég skil vel að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) sé ekki í góðu skapi þessa dagana. Í hans sporum væri ég það ekki heldur.