144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

ummæli ráðherra í umræðum.

[14:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Vissulega varðar það fundarstjórn forseta og störf þingsins að hér þurfi hv. þingmenn eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir að bíða mánuðum saman eftir að fá sérstaka umræðu um mál sem varðar góða stjórnsýslu og stjórnsýsluhætti, fá síðan yfir sig ádrepu fyrir það að ljá máls á þessu máli eftir að hafa beðið lengi eftir að taka það upp og hlusta á skilgreiningar um grænt hagkerfi, að ekkert sé grænna en torfbær þegar við vitum að hér hefur verið samþykkt þingsályktun um græna hagkerfið sem er í fjárlagalið. Og allt er þetta gagnrýnt af Ríkisendurskoðun sem tekur málið upp.

Það að gagnrýni Ríkisendurskoðunar sé ekki tekin alvarlegar en þetta finnst mér áhyggjuefni fyrir forseta Alþingis. Þess vegna varðar það tvímælalaust fundarstjórn forseta og störf Alþingis Íslendinga að slík gagnrýni sé höfð í flimtingum hér.