145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég trúi því að þetta skipti raunverulega máli. Þó svo ég hafi gert lýðheilsumálin að meginatriði í ræðu minni hér áðan — og því ekki gefist jafnmikill tími og ég hefði kosið til að ræða aðra þætti sem ég tel einnig skipta máli í þessari umræðu þá sé ég að það eru fleiri sjónarmið sem skipta máli, þar á meðal byggðasjónarmiðin.

Ég verð að viðurkenna að áfengisdreifingin er eitt af því sem mér finnst virka ótrúlega vel í samfélagi okkar; þar er jafnræði meðal borgaranna, hvort sem þeir búa hér á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Ég skal alveg fallast á að jafnræðið mætti svo sannarlega vera í mun fleiri þáttum, en í það minnsta virkar þetta þarna.

Áfengisneysla er í mínum huga ekki bara vandamál, alla vega ekki vandamál fyrir alla, heldur er það líka félagsleg athöfn fyrir suma. Áfengisneysla er líka menningartengd á margan hátt. Þá finnst mér skipta máli að fólk sitji við sama borð. Ég held að það verði ekki þannig. Nú er það svoleiðis að þú getur farið í hvaða Vínbúð sem er og látið panta fyrir þig vöru sem ekki er til. Þú borgar sama verð fyrir hana hvar sem þú ert úti á landi og þú borgar fyrir hana í Reykjavík. Ég held að það (Forseti hringir.) mundi ekki verða þannig ef þú ferð í matvörubúðina sem er í bænum þínum. Ég held að neytandinn muni þá alltaf þurfa að greiða flutningskostnaðinn sjálfur, að það verði ekki ríkið sem taki þátt í því.