146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

framkvæmd og fjármögnun heilbrigðisstefnu.

[15:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina og góð orð í minn garð. Því er fyrst til að svara að ríkisstjórnin hefur sett heilbrigðismálin sérstaklega sem forgangsmál í stjórnarsáttmála sínum og tekur málaflokkinn sérstaklega út fyrir sviga einan og sér. Nú er að hefjast undirbúningur að vinnu fjármálaáætlunar til næstu fimm ára þar sem verða lagðar hinar stóru línur í römmum til málaflokkanna. Það er auðvitað gert bæði út frá stöðu málaflokkanna, stöðu ársins í ár, en líka út frá áherslum í stjórnarsáttmálanum. Það má því segja að í stjórnarsáttmálanum hafi nú þegar verið gert eins konar samkomulag á milli stjórnarflokkanna, og við hæstv. fjármálaráðherra eins og hv. þingmaður spurði um, um forgangsröðun til heilbrigðismálanna. Þessi vinna er þó auðvitað rétt farin af stað, þ.e. við fjármálaáætlunina, og verður í gangi næstu vikurnar og þarf samkvæmt lögum að vera komin fram fyrir 1. apríl.

Það sama má segja um nákvæmari útlistun í stjórnarsáttmálanum þegar kemur að styrkingu heilsugæslunnar og geðheilbrigðismála, þar stendur til að gera betur. Það er sérstaklega tekið fram. Það er einnig tekið fram í stjórnarsáttmálanum að til standi að setja heildstæða heilbrigðisstefnu þannig að auðvitað þarf að vera hluti af þeirri stefnu að draga þessa málaflokka sérstaklega fram en auk þess geri ég ráð fyrir því að setja þá í sérstaka vinnu innan ráðuneytisins.

Nú er tíminn því miður uppurinn þannig að ég kem að fleiri þáttum í fyrirspurninni í seinna svari.