149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

meðferð á erlendu vinnuafli.

[10:49]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýverið sáum við sennilega öll fréttaþáttinn Kveik og fundum fyrir mikilli samúð með fórnarlömbum í þeim þætti sem hafa orðið fyrir svindli og þjófnaði. Auðvitað finnst okkur það öllum ólíðandi. Ég beini því þeirri spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, hvort við þurfum ekki að fara að gera eitthvað í því. Ég veit að hann hefur sett fram starfshóp en eins og formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, kom inn á í umræðum um störf þingsins í gær þarf meira til. Þess vegna velti ég því upp hvort við ættum ekki að setja í refsilöggjöfina harðari viðurlög þegar stolið er af fólki. Það er náttúrlega þjófnaður þegar kjarasamningar eru ekki virtir og fólk fær ekki þau laun sem við höfum samið um handa þeim. Þurfum við ekki að taka harðar á því? Verkalýðshreyfingin hefur m.a. kallað eftir því að við grípum inn í það á einhvern hátt, að hún hafi einhver tæki og tól önnur en að tuða í fólki um að greiða laun. Það verður svo oft eina niðurstaðan að fólk fær einhvern hluta af því sem það á inni og síðan ekkert meir.