149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

andlát vegna ofneyslu lyfja.

[10:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki endilega að koma hérna upp í óundirbúnar fyrirspurnir að þessu sinni. En ég bara get ekki annað í ljósi þeirra ummæla sem hæstv. heilbrigðisráðherra lét falla í svari við fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar, þar sem hún talaði um hversu vel við stæðum að okkar geðheilbrigðismálum samanborið við aðrar þjóðir, sem tjóðri jafnvel veika fólkið sitt og loki það inni í búrum. Ef þetta er mælikvarðinn á það að við séum með gott geðheilbrigðiskerfi, þá er nú ansi illa fyrir okkur komið.

Það er komin út skýrsla um að það eru 39 einstaklingar sem hafa dáið vegna lyfjaeitrunar það sem af er ári, fleiri en allt árið í fyrra, 39 einstaklingar. Er þetta ásættanlegt, hæstv. heilbrigðisráðherra?

Hvað getum við gert raunhæft í stöðunni og gert það strax án þess að vera að bíða eftir að horfa á eftir fleirum? Það stefnir hér í stórslys. Það er vöxtur í fjölda deyjandi ungmenna og fólks vegna lyfjaeitrunar. Hvað eigum við að gera í stöðunni? Getum við eitthvað gert á einum sólarhring eins og þegar við hjálpuðum brothættum byggðum sunnanverðra Vestfjarða og tókum höndum saman öll sem eitt? Ég efast ekki um það, hæstv. heilbrigðisráðherra, að hér inni myndi hver einasti þingmaður, ég ætla að alhæfa hér og nú, vilja taka þetta mál í fangið með þér af öllu hjarta og fylgja því svo vel úr garði að við sæjum lækkun í fjölda þessara dauðsfalla frekar en sívaxandi hækkun.