149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[16:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Um sama mál: Klukkan 15.33 fæ ég tölvupóst sem áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, um að búið sé að breyta fundartíma fundar sem vera átti eftir þingfundinn, yfir á þingfundartíma. Varaformaður nefndarinnar óskar þess að halda fund á þingfundartíma. Sex mínútum síðar kemur fundarboðið um þann fundartíma. Það er mjög skýrt í þingskapalögum að það þarf bara einn til að segja: nei, ég vil ekki að það sé fundur á þingfundartíma. Ég hef ekkert um það að segja, ég er áheyrnarfulltrúi. En fundurinn var haldinn. Héðan ruku fimm út og á fundinn. Eftir því sem mér skilst var ekki einu sinni nefndarritari á þeim fundi, hann hvarf eitthvað í burtu. (Gripið fram í: Jú, jú, það var ritari.) Allt í lagi, hann var þar. Það er ágætt.

En það eru ákveðnar sögusagnir í gangi um hvað fór fram þarna og hverjir voru á þessum fundi. Það væri ágætt ef þeir þingmenn sem voru á þessum fundi myndu koma og upplýsa okkur aðeins meira um hvernig þessi fundur fór fram og af hverju ekki allir (Forseti hringir.) nefndarmenn fengu andmælarétt um hvort hafa ætti nefndarfund á þingfundartíma.