150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta síðara andsvar sem ég held að hafi ekki falið í sér spurningu frekar en það fyrra. En ég nefndi í lok ræðu minnar að forsætisnefnd Alþingis hefði tekið fyrir kvartanir þingmanna um skriflegar fyrirspurnir á þinginu sem sé ekki svarað eða svarað mjög seint. Ég skal ekki kveða upp neina dóma um það en mér finnst í þessu atriði að erindisbréf hæstv. ráðherra sé ekki í fullu samræmi við skýrslubeiðni Alþingis. Mér finnst það. Það getur auðvitað hver sem er lesið sér til glöggvunar hvort svo sé eða hvort hann telji svo vera. Skýrslan er í sjálfu sér mjög góð. Já, nú hlæja menn í hliðarherbergjum, það er ágætt. En ég bara geri þá kröfu að Alþingi sé tekið alvarlega og þegar við samþykkjum, ég tala nú ekki um í þrígang, skýrslubeiðni með sama orðalagi, það hefur ekki farið á milli mála og engin breyting verið á orðalaginu, þá fari hæstv. ráðherra að samþykktum Alþingis og komi þeim áleiðis út í stjórnkerfið með réttum og fullnægjandi hætti. Ég er ekki að finna að skýrslunni. Hvað á ég að segja það oft?