151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

brottvísun fjölskyldu frá Senegal.

[10:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Ég átti nú hálft í hvoru von á að hæstv. fjármálaráðherra myndi fara að ræða um að dýpka umræðuna eins og hann gerir gjarnan þegar hann veit ekkert í sinn haus. Hér er það hann sem grautar saman allri umræðu. Ríkisstjórnin hefur haft þrjú ár til þess að laga kerfið sem snýr að útlendingum og fólki sem hingað kemur. Hún hefur ekkert gert nema að leggja í þrígang fram frumvörp sem eru afturför.

Að flýja heimkynni sín? Varla eru þessir Covid-ferðamenn, sérfræðingarnir, prófessorarnir, að flýja heimkynni sín. Fjölskylda frá Senegal er ekki að óska eftir alþjóðlegri vernd, hún er að sækja um dvalarleyfi. Þetta er fólk sem hefur verið þátttakendur í íslensku samfélagi. Fjölskyldufaðirinn hefur unnið hér, hann hefur borgað skatta til samfélagsins. Og börnin eru búin að vera hérna í sex ár, eins og hæstv. ráðherra sagði, og ég skil heldur ekki af hverju þau fá ekki að vera hérna áfram.