151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

kjör lífeyrisþega.

[10:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það virðist sem veikt fólk hafi verið svelt til hlýðni á Arnarholti, ekki fengið mat, lokað inni vikum saman. Þetta hefur ekkert breyst. Stefna stjórnvalda er enn að svelta fatlað fólk til hlýðni. Nú er það gert með fjárhagslegu ofbeldi á þann hátt að hækka ekki lífeyrislaun nema um brot af launaþróun og nú bara um 3,6% um næstu áramót. Kerfisbundið hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn svelt fólk til hlýðni. Lífeyrislaun eru svo naumt skömmtuð að lífeyrir dugir ekki fyrir brýnustu nauðsynjum eins og húsaskjóli, mat og lyfjum. Fólk sér ekki fyrir að hann dugi fram í miðjan mánuðinn og þá er veikt fólk búið að velta hverri krónu fyrir sér.

Formaður Öryrkjabandalagsins skrifaði orðrétt, með leyfi forseta:

„Öryrkjabandalagið harmar valdníðslu á fötluðu fólki bæði þá og nú og hvetur stjórnvöld til að tryggja fötluðu fólki „líf til jafns við aðra“. Hugur okkar er hjá þeim sem máttu þola þessa nauðungarvist, sem og hjá aðstandendum og öllu fötluðu fólki á Íslandi. Stjórnmálamenn nútímans hvetjum við til að íhuga hvernig söguritarar framtíðar fari með verk þeirra, því í því samfélagi sem við höfum búið okkur, finnast örugglega fleiri Arnarholt. Kannski er eitt í næsta húsi við þig.“

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér eftir 50 ár að saga þessarar ríkisstjórnar verði skráð? Sér hann fyrir sér að farið verði í skaðabótamál vegna þess að fólk hefur nauðugt verið lokað í íbúðum sínum eða inni á stofnunum vegna Covid? Það eina sem það hefur séð er grímuklætt fólk í búningum eða hinir sem eru heima og hafa ekki séð neinn vegna hræðslu við að smitast. Fólkið kemst ekki út í búð til að kaupa mat, á ekki fyrir mat, kemst ekki í biðraðir eftir mat. Hvað sér ráðherra fyrir sér að þetta fólk eigi að gera?