151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:50]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál fyrir, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, og að ræða sérstaklega um sérfræðilækna. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Aðgengið er hægt að skilgreina á margan hátt og samgöngur eru einn lykillinn að því að tryggja aðgengi, hvort sem er til sérfræðilækna þar sem þeir starfa almennt eða að sérfræðilæknar komi heim í hérað. Greiðar og skilvirkar samgöngur eru lykilþáttur í þessu aðgengi og ekki síst innanlandsflugið. T.d. eru engar flugsamgöngur til Vestmannaeyja, eins og nefnt var í ræðunni á undan mér, þannig að fólk sem þarf að leita til sérfræðilækna þarf að fara í margra daga ferðalag, oft við misjafnar aðstæður til að ferðast landleiðina. Samgöngur eru númer eitt, tvö og þrjú, það er lykilatriði að flugferðir séu tvisvar á dag, svo að sérfræðingar geti komið að morgni og farið heim aftur að kvöldi og þannig sinnt erindum sínum og fækkað þeim ferðum sem aðrir sem þurfa að leita til hans þurfa að fara.

En það er annað sem við þurfum að hafa í huga í þessu og það er hlutverk heilbrigðisstofnana. Heilbrigðisstofnanir hér á suðvesturhorninu, eða hér á höfuðborgarsvæðinu, þurfa ekki að fá sérfræðilækna í miklum mæli til síns, skaffa þeim húsnæði og borga þeim eitthvert lágmarksgjald fyrir að koma eins og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa að gera. Það þarf að skoða þessa greiðsluþátttöku, hlutverk heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, þar er ekki rétt gefið. Eins og hefur verið rætt hér í dag, og hæstv. heilbrigðisráðherra kom inn á, mun fjarheilbrigðisþjónusta geta leyst töluvert af þessu vandamáli. Þá geta sérfræðilæknar þess vegna verið úti á landi og sinnt þjónustu úti um allt land.