151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:52]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Það þarf ekki að velkjast í vafa um mikilvægi þess að við höfum öflugt og sterkt og heilbrigt heilbrigðiskerfi á Íslandi. Tækniþróun hefur fleygt fram síðustu áratugina í læknisfræði, rétt eins og á öðrum sviðum. Aðgerðir sem áður þurftu innlögn, jafnvel í marga daga, er nú hægt að framkvæma án þess að innlagnar sé þörf. Sjúklingur getur jafnvel farið heim samdægurs. Það er á borði stjórnvalda að sérhæfð læknisþjónusta sé áfram veitt utan sjúkrahúsa og leiðin til þess er að klára samninga um opinbera þjónustu sérgreinalækna á eigin læknastofum og heilsugæslustöðvum. Það er lykillinn að því að leysa þann vanda sem við ræðum í þessari mikilvægu umræðu. Þetta er í raun það fyrirkomulag sem hefur verið í áratugi og gefið mjög góða raun. Hins vegar eykst umfang og nauðsyn þessarar starfsemi vegna ofangreindra ástæðna. Þá er lag að stjórnvöld taki þátt í að efla þetta stig heilbrigðisþjónustunnar með því að gera, eins og áður segir, sterka samninga þar um, samninga með það að leiðarljósi að nauðsynleg nýliðun geti átt sér stað.

Um 8% íbúa landsins búa í meira en tveggja tíma akstursfjarlægð frá sérfræðingum á Akureyri og í Reykjavík. Eins og þessi umræða er til marks um þarf því nauðsynlega að styrkja kjör landsbyggðarlækna með stjórnvaldsátaki. Samhliða því þarf að auka framlögin í fjárlögum ríkisins til þessara þátta. Lausnin er fjölþætt og að sumu leyti flókin. Vinna þarf vönduð hagfræðilíkön sem hægt væri að styðjast við. Þetta þarf að vera upplýst umræða.

Að lokum vil ég minna á það, virðulegi forseti, að þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni er á ábyrgð stjórnvalda en ekki læknanna sjálfra.