151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við þurfum að klára að manna almennilega heilsugæsluna í kringum landið sem er alfarið á vegum hins opinbera og við þurfum að skoða þar heildarmyndina. Við áttum m.a. fund með yfirvöldum á Suðurnesjum. Þar er ein heilsugæsla fyrir 21.000 manns. Meiri hlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur kallað eftir því að fara í samstarf við einkareknar sjálfstætt starfandi heilsugæslur og ef það tekur skemmri tíma og getur bætt þjónustuna á Suðurnesjunum eigum við einfaldlega að fara þangað. Það þýðir ekki að festa sig í því að ríkið eigi að sjá um allt. Ef við getum bætt þjónustuna við fólkið okkar hvar sem það býr þá eigum við að nota öll tæki til þess, hvort sem það eru sjálfstætt starfandi heilsugæslur, einkareknar, eins og hefur gengið svo ótrúlega vel hér á höfuðborgarsvæðinu, eða annað.

Ég vil líka benda á að það eru augljós sóknarfæri í fjarheilbrigðisþjónustu, hvort sem það er í tengslum við almennt reknar heilsugæslur, ríkisreknar heilsugæslur, Landspítalann eða sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Ég held að við eigum að nýta þá þjónustu á meðan það er ekki svo auðveldlega hægt að flytja rannsóknartæki á milli staða á landsbyggðinni. Þetta getur styrkt geðheilbrigðisþjónustuna. Það er tilfinnanlegur skortur á geðlæknum og sálfræðingum á landsbyggðinni og þannig getum við eflt aðgengi að sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu.

Við vitum það líka, virðulegi forseti, að sérfræðilæknar eru búnir að vera samningslausir í tvö og hálft ár. Ráðherra hefur ítrekað stigið fram og lýst því yfir að verið sé að semja við sérfræðilækna en ég heyri það, og mínar heimildir segja, að sérfræðilæknar kannist ekki alveg beint við það samtal. Þeir hafa hins vegar ítrekað kallað eftir því að fá að vita hvaða þjónustu ríkið vill kaupa og fátt hefur verið um svör. Mér finnst það miður og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða.

Ég vil líka draga fram að hluti af lausninni er að skilgreina hvaða grunnþjónustu við íbúar, hvar sem við erum og búum á landinu, þurfum að eiga aðgang að. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að vera með opinn huga og hlusta m.a. á það sem Alma Möller landlæknir sagði í morgun í útvarpinu. Það eru ákveðnir veikir blettir (Forseti hringir.) innan heilbrigðisþjónustunnar og við verðum að vera opin gagnvart því að leysa m.a. biðlistana, (Forseti hringir.) hvort sem þeir eru á landsbyggðinni eða hér, með því að leita til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks líka.